Þingmenn Vinstri grænna vilja að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að kyrrsetja eignir fyrrverandi stjórnenda, eigenda og annarra tengdra aðila gömlu bankanna þriggja, Landsbanka, Kaupþings og Glitnis.

Þingmennirnir hafa lagt fram frumvarp þess efnis fram á Alþingi.

„Tilgangur frumvarps þessa er að reisa skorður við því að framangreindir aðilar ráðstafi eignum sínum á meðan ekkert liggur fyrir hvort, að hve miklu leyti og hverjum þeim beri að bæta það tjón sem orðið hefur vegna hrunsins," segir meðal annars í athugasemdum frumvarpsins.

„Þrátt fyrir að inngrip í eignarréttinn af þessu tagi eigi sér fá fordæmi verður til þess að líta að um tímabundna aðgerð er að ræða sem skoða þarf í ljósi þeirra sérstöku atvika er leiddu til setningar svonefndra neyðarlaga."