Fjárfestingafélagið Colony Capital hyggst leggja framleiðslufyrirtækinu Weinstein Co., til fé og koma fjárhag þess þar með til bjargar, að minnsta kosti um sinn.

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var rekinn frá Weinstein Co. eftir að fjöldi kvenna í kvikmyndaiðnaðnum sakaði Weinstein um að brjóta gegn sér kynferðislega.

Óvissa hefur verið um framtíð fyrirtækisins eftir að ásakanirnar komu upp á yfirborðið en Weinstein Co. hefur framleitt fjölda þekktra mynda á borð við Kill Bill, Pulp Fiction og Shakespeare in Love.

Colony Capital er í eigu fjárfestisins Tom Barrack, sem er náin vinur Donald Trump Bandaríkjaforseta, að því er kemur fram í frétt CNBC . Barrack var meðal annars formaður nefndar sem sá um innvígsluathöfn Trump í janúar síðastliðnum.

Í tilkynningu til fjölmiðla Vestanhafs segir að Colony Capital eigi jafnframt í viðræðum um að kaupa umtalsverðan hluta af eignum Weinstein Co.