Rúmlega ein milljón vínylplatna hefur selst í Bretlandi á þessu ári og hefur salan ekki verið meiri í átján ár. BBC News greinir frá þessu.

Pink Floyd gaf út plötuna 'The Endless River' á vínyl fyrr í mánuðinum og hefur engin vínylplata selst jafnhratt frá árinu 1997. Þó hafa ekki nema sex þúsund eintök selst af plötunni hingað til sem verður að teljast lítið í samanburði við aðra sölu á tónlist. Til dæmis hafði tónlist með hljómsveitinni One Direction verið hlaðið niður í meira en milljarði tilvika fyrr í þessari viku.

Martin Talbot, framkvæmdastjóri Official Charts, segir samt að þróunin í sölu á vínylplötum sé ótrúleg og þær séu aftur orðnar þýðingarmiklar í tónlistariðnaðinum. „Fyrir fimm árum síðan veltu vínylplöturnar um 3 milljónum punda á ári. Á þessu ári mun fjárhæðin hins vegar nálgast 20 milljónir punda.“