Hlutabréfagengi Brims hækkaði um 5,6% í dag og hefur nú stökkið upp um 20% á síðustu þremur dögum. Markaðsvirði útgerðarfélagsins hefur því hækkað um 21,5 milljarða króna í vikunni og nemur nú 129 milljörðum. Úrslit kosninganna og líkur á að aflamark á loðnu verður aukið kann að skýra hækkunina. Gengi Síldarvinnslunnar lækkaði hins vegar um hálft prósent í dag en hafði hækkað um 13% síðustu tvö daga.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% í 5,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Lækkun vísitölunnar skýrist helst af gengi Marels sem féll um 2,4% í 346 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 876 krónum á hlut og hefur lækkað um tæp 10% í september en félagið náði sínu hæsta gengi frá skráningu þann 31. ágúst í 973 krónum. Marel sendi frá sér flöggunartilkynningu eftir lokun Kauphallarinnar í gær þar sem fram kom að Capital Group, þriðji stærsti hluthafinn, seldi í félaginu fyrir tæplega 620 milljónir á mánudaginn.

Bankarnir þrír, Arion, Kvika og Íslandsbanki, lækkuðu allir í viðskiptum dagsins. Þar kann að hafa spilað inn í á kvörðun fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans að setja á reglur um hámarks greiðslubyrði fasteignalána og að hækka sveiflujöfnunaraukann.

Mesta veltan, eða um 1,7 milljarðar króna, var með hlutabréf Festi sem hækkaði um tæp tvö prósent í dag. Félagið hefur nú hækkað um tæp 7% á einni viku.