Virði eigna Framtakssjóðs Íslandsjókst um tæp 100% á fyrsta fjárfestingaári sjóðsins samkvæmt drögum að endurmati á eignum hans að því er kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag en Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ, kynnti endurmatið á fundi Félags löggiltra endurskoðenda í gærmorgun.

Samtals nam kaupverð á umræddum fjárfestingum 16,8 milljörðum króna. Samkvæmt endurmatinu sem kynnt var á fundinum í gærmorgun hefur virði þeirra hækkað um 16,6 milljarða króna á þessu eina ári og er samtals 33,4 milljarðar króna. Langmest munar um endurmat á virði Icelandic Group sem hefur hækkað um 13 milljarða króna á einu ári. Auk þess hækkaði virði Icelandair töluvert. Finnbogi segir við Fréttablaðið að arðsemi fjárfestinganna hafi farið langt fram úr þeim væntingum sem upphaflega hafi verið gerðar til þeirra.