Þann 27. nóvember 2011 tók Íslandsbanki yfir allar eignir og skuldir sparisjóðsins Byr hf. og greiddi fyrir það 6,6 milljarða króna í formi skuldabréfs. Við yfirtökuna framkvæmdi Íslandsbanki gangvirðismat á virði eigna og skulda Byrs og var það mat bankans að skuldir Byrs væru um 11 milljörðum króna meiri en eignir sparisjóðsins.

Miðað við verðmat Íslandsbanka í nóvember 2011 hafði útlánasafn Byrs rýrnað í virði um 60 milljarða króna á tveimur árum. Virði eignarhluta í hlutdeildarfélögum, dótturfélaga og fastafjármuna til sölu var metið á um 6 milljarða króna samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka árið 2011. Það er talsvert minna en í síðasta ársreikningi Byrs, sem er frá 30. júní 2011.

Hluturinn í Borgun 1,7 milljarða virði

Íslandsbanki mat virði eignarhluta Byrs í sjö hlutdeildarfélögum á um 1,1 milljarð króna við yfirtökuna. Á meðal þeirra eignarhluta sem um ræðir var 22% hlutur Byrs í Borgun, en það var við yfirtökuna á honum sem Íslandsbanki náði yfirráðum í félaginu með samanlagt 61,3% eignarhlut.

Fyrir ári seldi Landsbankinn 31,2% hlut sinn í Borgun á um 2,2 milljarða króna. Miðað við þá tölu má ætla að 22% hlutur í Borgun hafi einn og sér verið um 1,6 milljarða króna virði í fyrra. Þessi eini eignarhlutur virðist því vera verðmætari en sem samsvarar mati Íslandsbanka á verðmæti allra sjö eignarhlutanna við yfirtökuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .