Frá því að tilkynnt var um 1,5 milljarða sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið (SKE) þann 16. júní síðastliðinn hefur markaðsvirði félagsins aukist um 12,4 milljarða króna.

Hlutabréfaverð félagsins var 287 krónur á hlut þann 16. júní en það er nú komið upp í 358 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa félagsins hefur því hækkað um 24,7% á þessu tæplega tveggja vikna tímabili. Á ársgrundvelli hafa hlutabréf félagsins hækkað um 161.3%.

Þann 9. júní síðastliðinn var greint frá því að Eimskip hefði óskað eftir því að hefja viðræður um sátt vegna samkeppnislagabrota félagsins og í kjölfarið lækkaði gengi hlutabréfa félagsins um 4,1% niður í 281 krónu á hlut.

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, keypti 90 þúsund hluti í félaginu síðastliðinn föstudag á genginu 337,5 krónur á hlut. Frá þeim tíma hefur gengi hlutabréfa félagsins aukist um 6.1% sé miðað við gengi þessara viðskipta.