*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 28. júní 2021 13:21

Virði Eimskips aukist um 12,4 milljarða

Markaðsvirði Eimskips hefur aukist um 12,4 milljarða króna frá því að tilkynnt var um sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið.

Snær Snæbjörnsson
Hlutabréfagengi Eimskips er komið í 358 krónur á hlut.
Aðsend mynd

Frá því að tilkynnt var um 1,5 milljarða sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið (SKE) þann 16. júní síðastliðinn hefur markaðsvirði félagsins aukist um 12,4 milljarða króna. 

Hlutabréfaverð félagsins var 287 krónur á hlut þann 16. júní en það er nú komið upp í 358 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa félagsins hefur því hækkað um 24,7% á þessu tæplega tveggja vikna tímabili. Á ársgrundvelli hafa hlutabréf félagsins hækkað um 161.3%.

Þann 9. júní síðastliðinn var greint frá því að Eimskip hefði óskað eftir því að hefja viðræður um sátt vegna samkeppnislagabrota félagsins og í kjölfarið lækkaði gengi hlutabréfa félagsins um 4,1% niður í 281 krónu á hlut. 

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, keypti 90 þúsund hluti í félaginu síðastliðinn föstudag á genginu 337,5 krónur á hlut. Frá þeim tíma hefur gengi hlutabréfa félagsins aukist um 6.1% sé miðað við gengi þessara viðskipta. 

Stikkorð: Eimskip