Markaðsvirði Icelandair hefur aukist um sjö prósent á þessu ári, úr 41 milljarði króna í 44 milljarða. Markaðsvirði flugfélagsins var 48 milljarðar í upphafi árs 2018 og hefur því lækkað um átta prósent síðan þá. Í febrúar árið 2016 var markaðsvirði Icelandair um 175 milljarðar, fjórfalt hærra en félagið er metið á nú um mundir.

Eftir lokun markaða í dag stóðu bréf Icelandair í 1,55 krónu hvert. Fjöldi hluta eru rúmlega 28 milljarðar en í september á þessu ári lauk félagið við 23 milljarða hlutafjárútboði. Í upphafi árs stóðu bréf Icelandair í 7,55 krónum hvert en fjöldi hluta voru hins vegar ríflega fimm milljarðar. Það þýðir að þrátt fyrir að hlutabréf Icelandair hafi lækkað gífurlega á þessu ári, um rúmlega 80%, hefur markaðsvirði félagsins samt hækkað þar sem fjöldi hluta eru nú margfalt fleiri.

Hlutabréf Icelandair höfðu lækkað talsvert fyrir þetta ár. Rekstur Icelandair var þegar orðinn þungur árið 2018 en félagið tapaði sex milljörðum króna það árið. Tapið jókst árið 2019, bæði í krónum talið sem og í dollurum. Mikil samkeppni hefur einkennt reksturinn en auk þess voru Boeing 737 MAX flugvélarnar kyrrsettar á síðasta ári.

Á fyrra hluta ársins tapaði Icelandair tæplega fimmtíu milljörðum króna. Félagið hagnaðist þó um 5,2 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020, samanborið við 8,4 milljarða hagnað á sama tímabili fyrra árs.

Í kjölfar hlutafjárútboðs Icelandair telur félagið að rekstur þess sé tryggður út árið 2022. Enn fremur tókst flugfélaginu að endursemja við flugfreyjur, flugmenn sem og flugvirkja til fimm ára. Auk þess hefur Icelandair samið við Boeing um bætur vegna kyrrsetningar á MAX vélunum.