Líkt og greint var frá í morgun hefur Icelandair Group selt eftirstandandi 25% hlut í Icelandair Hotels til Berjaya á 440 milljónir króna (3,4 milljónir dala). Malasíska fjárfestingafélagið hafði þegar keypt 75% hlut í hótelkeðjunni og er því nú orðinn eini eigandi Icelandair Hotels. Miðað við kaupverð 25% hlutarins er Icelandair Hotels metið á tæplega 1,8 millarða króna eins og staðan er í dag.

Upphaflega er greint var frá kaupum Berjaya á 75% hlutnum var kaupverðið sagt nema 10,1 milljarði króna (84 milljónir dala). Miðað við það var Icelandair Hotels metið á um 12,6 milljarða króna. Miðað við fyrrnefndar forsendur hefur virði Icelandair Hotels því lækkað um 86% á tímabilinu.

Þess ber þó að geta að er upphaflega var samið um söluna á 75% hlutnum var kórónuveirufaraldurinn ekki farinn á stjá en umræddur faraldur hefur leikið ferðaþjónustuna sérlega grátt. Icelandair Hotels tapaði 610 milljónum króna árið 2019 miðað við 240 milljóna króna hagnað árið 2018.

Icelandair Group hefur selt eignir að undanförnu sem bæta lausafjárstöðu félagsins, en félagið tapaði 51 milljarði króna árið 2020. Félagið seldi höfuðstöðvar sínar á Nauthólsvegi til Reita í desember á 2,3 milljarða króna en munu leigja þær til þriggja ára, en að lokum flytja í nýjar höfuðstöðvar á Flugvöllum í Hafnarfirði. Þá seldi Icelandair þrjár Boeing 757 flugvélar í október á tæpa þrjá milljarða króna.

Kaupverðið fór lækkandi

Skömmu eftir að samið var um viðskiptin greiddi malasíska félagið 1,9 milljarða króna og stóð upphaflega til að eftirstöðvar kaupverðsins yrðu greiddar í lok árs 2019. Í desember sama ár var svo greint frá því að lokagreiðslan myndi frestast þar til í lok febrúar 2020, en seinkunin var tilkomin vegna gjaldeyrishafta í Malasíu.

Í lok febrúar var svo greint frá því að heildarkaupverð 75% hlutarins í Icelandair Hotels yrði rúmir 7 milljarðar króna (55,3 milljónir dala). Samningsaðilar greindu þá frá samkomulagi þess efnis að eftirstöðvar kaupverðsins, 5,1 milljarðar króna (40,3 milljónir dala), yrði greiddur í tveimur greiðslum. Helmingur eftirstöðvanna yrði greiddur í lok febrúar og lokagreiðslan 31. maí 2020.

Í byrjun apríl í fyrra kom svo fram í tilkynningu frá Icelandair að lokagreiðslan hafi fengist greidd, en ekki 31. maí eins og áður hafði verið ætlað. Vegna efnahagslegrar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hafi Icelandair og Berjaya komist að samkomulagi um að lokagreiðslan yrði lækkuð frá því sem áður var tilkynnt og nemi 1,5 milljarði króna. Heildarkaupverð 75% hlutar hafi því endað í um 6,5 milljörðum króna.

Í gegnum kaupferlið lækkaði kaupverð 75% hlutarins því úr 10,1 milljarði króna í 6,5 milljarða króna. Líkt og fyrr segir hefur malasíska félagið nú keypt eftirstandandi 25% hlut Icelandair í hótelkeðjunni á 440 milljónir króna. Það þýðir það að alls greiddi Berjaya tæplega 7 milljarða króna fyrir Icelandair Hotels.