Virði samfélagsmiðilsins Reddit var metið 6 milljarðar bandarískra dollara, sem samsvarar um 770 milljörðum íslenskra króna, í nýlegri fjármögnun félagsins þar sem félagið sótti sér 250 milljónir dollara.

Í umfjöllun WSJ kemur fram að Reddit hafi fyrir verið metið á 3 milljarða dollara í fjármögnun félagsins í febrúar árið 2019.

Notendum Reddit hefur fjölgað umtalsvert í kórónuveirufaraldrinum auk þess sem miðillinn hefur verið mikið í umræðunni eftir að notendur hans létu til sín taka á mörkuðum nýverið, en atvikið hefur laðað að auglýsendur.

Sjá einnig: Wallstreetbets keyrir upp bréf Gamestop og Reddit-fjárfestarnir snúa sér að silfri

Steve Huffman, forstjóri Reddit, segir hagstætt að sækja fjármagn á markaði við núverandi aðstæður, félög séu hátt metin eins og sakir standa og það skaði ekki að sækja fé þegar tækifæri bjóðast og Reddit hafi átt gott ár. Þannig hafi auglýsingatekjur miðilsins aukist um 90% milli ára á fjórða ársfjórðungi og í október hafði notendum fjölgað um 44% milli ára.

Reddit hefur sótt 800 milljónir dala í fjármögnun frá árinu 2011 en hefur ekki enn skilað hagnaði. Huffman segir félagið ætla sér að nýta fjármögnunina til fjárfestinga í myndböndum, auglýsingum og neytendavörum, auk þess að sækja inn á alþjóðlega markaði. Þá á fjármögnunin að hjálpa félaginu að laða að hæfileikaríkt starfsfólk en fyrirhugað er að tvöfalda starfsmannafjölda á árinu.