Eignarhlutur Davíðs Helgasonar í Unity Software er nú metinn á 65-69 milljarða króna samkvæmt nýju verðbili fyrir útboð félagsins. Það er allt að 29% hærri fjárhæð en ráðgert var miðað við upphaflegt verðbil. Áður var gert ráð fyrir að hvert hlutabréf í félaginu yrði selt á 34-42 Bandaríkjadali í frumútboði félagsins, það verðbil er nú 44-48 Bandaríkjadalir. Félagið er því metið á allt að 12,6 milljarða Bandaríkjadala, andvirði um 1.700 milljarða króna.

Skrá á félagið á markað í kauphöll New York á morgun og ef miðað er við útboðsgengið 48 dollarar hyggst félagið sækja sér allt að 1,2 milljarða dollara, jafnvirði 164 milljarða króna samkvæmt frétt Marketwatch um málið. Á síðasta ári fór félagið í fjármögnunarumferð og var þá metið á um sex milljarða dollara, um 820 milljarða króna. Til samanburðar er markaðsvirði Marel, sem er langverðmætasta félagið á íslensku kauphöllinni, ríflega 540 milljarðar króna.

Sjá einnig: Unity allt að 1.500 milljarða virði

Hlutabréf tæknifyrirtækisins Snowflake voru skráð á hlutabréfamarkað í gær. Um er að ræða stærsta frumútboð hugbúnaðarfyrirtækis í Bandaríkjunum frá upphafi en hlutabréf félagsins hækkuðu um 125% samdægurs.

Snowflake hafði upprunalega gert ráð fyrir að hvert hlutabréf yrði selt á bilinu 75-85 dollara hvert. Hver hlutur var hins vegar seldur á 120 dollara og stendur nú í 244 dollurum.

Sjá einnig: Tvöfaldast í virði á fyrsta degi

Davíð stofnaði Unity í Danmörku árið 2004 ásamt tveimur öðrum. Félagið býr til hugbúnað sem mikill fjöldi tölvuleikja byggir á, sér í lagi fyrir snjallsíma. Árið 2019 voru leikirnir sóttir í um 3 milljarða skipta á meira en 1,5 milljarða tækja en meirihluti af þúsund vinsælustu tölvuleikjum App Store og Google Play síðasta árið hafa byggt á hugbúnaði Unity.

Davíð á 10,4 milljónir hluta í félaginu og mun eiga 4% hlut í félaginu að útboðinu loknu sem mun vera allt að 500 milljóna dollara virði eða um 69 milljarða króna.