Vinnslustöðin hf. skilaði 5,4 milljónum evra, eða um 800 milljónum króna, í rekstrarhagnað á árinu 2020, sem er liðlega 40% minni hagnaður en á fyrra ári. Þetta kemur fram á heimasíðu VSV.

Framlegð samstæðunnar (EBITDA) nam 2,3 milljörðum króna og dróst saman um 29% milli ára. Engin loðna var veidd í fyrra og humarveiðar brugðust sömuleiðis. Fyrirtækið segir þó að veirufaraldurinn hafði mestu áhrifin á reksturinn, heima og að heiman. Var þar vísað í lokanir veitingahúsa og mötuneyta á hefðbundnum markaðssvæðum, aukið atvinnuleysi og miklar efnahagsþrengingar.

„Útkoman er viss varnarsigur á tímum þegar margt var mótdrægt og óvenjulega snúið við að eiga. Markmiðið var að halda sjó og það tókst,“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður félagsins í skýrslu stjórnar.

Samþykkt var á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar að greiða hluthöfum 5 milljón evrur í arð, jafnvirði um 750 milljóna króna. Fram kemur að arður sem hlutfall af markaðsvirði sé nú 2,4%. Miðað við þetta hlutfall er markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar ríflega 31,3 milljarðar króna.