Verðmæti nokkurra fyrirtækja hafa að undanförnu margfaldast í virði með því að tengja nöfn fyrirtækjanna við svokallaðaðar kubbakeðjur (e. blockchain) sem er tæknin sem Bitcoin og fleiri skyldar rafmyntir byggja á.

Virði bandaríska drykkjarvöruframleiðandans Long Island Iced Tea Corp. hækkaði um 300% eftir að fyrirtækið breytti nafni sínu í  Long Blockchain Corp í síðustu viku . Samhliða nafnabreytingunni tilkynnti fyrirtækið að það hygðist færa sig inn í heim rafmynta, þó fyrirtækið tæki fram að það hefði ekki tryggt sér neina samninga á því sviði.

Virði breska upplýsingatæknfyrirtækisins On-line Plc hækkaði um 394% eftir að fyrirtækið breytti nafni sínu í On-line Blockchain Plc í október . Dæmin eru mun fleiri líkt og Business Insider bendir á.

Virði Bitcoin hefur margfaldast á árinu og óttast margir að um bólu sé að ræða. Einn Bitcoin kostaði tæplega 900 dollara í upphafi ársins en fór hæst yfir 19.000 dollara í byrjun desember. Virði Bitcoin hefur lækkað nokkuð skarpt síðan og er nú nálægt 13.000 dollurum.