Verðbréfafyrirtækið Virðing hf. flytur á morgun, laugardag, starfsemi sína úr Borgartúni 30. Í tilkynningu kemur fram að félagið flyst í nýtt og betra húsnæði að Digranesvegi 1 í Kópavogi. „Virðing flyst á aðra hæð hússins á Kópavogshálsinum, sem hefur verið sniðið að starfsemi og þörfum verðbréfafyrirtækisins.“

Í tilkynningunni segir Friðjón Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri félagsins, að starfsemin hafi vaxið hratt á undanförnu og fyrirtækið hafi löngu verið búið að sprengja húsnæðið við Borgartún utan af sér.

„Það var mjög gott að vera í Borgartúni, og að ýmsu leyti er eftirsjá að því að hverfa þaðan. Hinsvegar er Kópavogshálsinn einnig afar góð staðsetning með tilliti til þarfa okkar og þar erum við líka mjög miðsvæðis. Þá er húsnæðið sjálft sérstaklega vel sniðið að þörfum starfseminnar og þar er aðstaða öll til fyrirmyndar, bæði með tilliti til starfsmanna og viðskiptavina sem koma til fundar við okkur,“ segir Friðjón.

Úr tilkynningu:

„Í kjölfar flutninganna verður ný heimasíða Virðingar tekin í notkun á slóðinni virding.is, þar sem aðgengilegar verða ítarlegar upplýsingar um þjónustu og starfsemi fyrirtækisins. Þar verður einnig að finna yfirlitskort til að auðvelda viðskiptavinum að rata rétta leið, en húsnæðið verður á næstunni merkt Virðingu að utan. Þess má geta að öll símanúmer, faxnúmer og tölvupóstföng fyrirtækisins verða óbreytt.

Virðing hf. var stofnað árið 1999 af tveimur lífeyrissjóðum. Félagið starfar samkvæmt heimild og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Meðal eiganda félagsins eru lífeyrissjóðir, stéttarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar. Félagið hefur frá upphafi rekið öfluga eignastýringu með góðum árangri og hafa margir af okkar viðskiptavinum verið með okkur frá stofnun félagsins.“