Hagnaður Virðingar hf. nam 60 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að ávinningur af sameiningu Auðar Capital og Virðingar hafi reynst umtalsverður. Töluverður einskiptiskostnaður hafi hins vegar fallið til vegna sameiningarinnar sem hafi verið að fullu gjaldfærður á árinu.

Heildartekjur Virðingar á árinu 2014 námu alls 921 milljón og eigið fé félagsins í árslok nam 697 milljónum króna. Einfjárhlutfallið var 24% í árslok. Heildarfjárhæð eigna í stýringu nam 86 milljörðum króna og að meðtöldum fjárvörslueignum eru heildarfjárvörslueignir félagsins um 200 milljarðar króna miðað við stöðuna í lok árs.

„Sameining Auðar Capital og Virðingar hefur reynst vera mikið gæfuspor. Félagið nýtur mikils trausts á markaðnum sem sést einna best á breidd viðskiptavinahóps félagsins. Sameinað félag er með alla helstu lífeyrissjóði landsins í viðskiptum auk annarra stórra fagfjárfesta og efnameiri einstaklinga. Árangurinn í ávöxtun verðbréfasjóða og í eignastýringu á síðasta ári talar sínu máli og er til vitnis um hæfni og reynslu þess öfluga fólks sem hér starfar. Metnaður félagsins er að halda áfram að vaxa á öllum sviðum starfseminnar. Sameiningin sem við fórum í gegnum á síðasta ári veitir okkur fjölmörg tækifæri til frekari vaxtar,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar.