Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 á kynningarfundi í Salnum í Kópavogi í morgun.

Á fundinum kom fram að samhliða fjárlagafrumvarpinu væru lagðar fram tillögur um breytingar á virðisaukaskattkerfinu sem ætlað er að auka skilvirkni þess og jafnræði milli atvinnugreina.

Verður þannig dregið úr mun milli skattþrepanna og breikka skattstofninn með því að fækka undanþágum. Efra þrepið lækkar úr 25,5% í 24% og hefur því aldrei verið lægra. Lægra þrepið hækkar hins vegar úr 7% í 12%. Undanþágur vegna afþreyingarferða, svo sem hvalaskoðunar, hestaferða, vélsleðaferða o.fl., eru felldar brott.

Þessar breytingar munu hafa í för með sér 23 milljarða króna tekjuaukningu fyrir ríkissjóð miðað við fjárlög ársins 2014.

Tryggingagjald lækkar lítillega

Fjármálaráðherra segir að tryggingagjald muni halda áfram að lækka. Lækkunin er þó heldur hófleg, eða 0,1% frá og með áramótum likt og ákveðið var í upphafi kjörtímabils. Bjarni viðurkennir að sú breyting sé ekki mikil en ekki sé hægt að ráðast í frekari lækkun vegna bágrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Verð á sjónvörpum lækki um 20%

Samhliða breytingum á virðisaukaskattkerfi er ráðgert að almenn vörugjöld verði felld niður á næstu tveimur árum. Almenn vörugjöld leggjast í dag á sykruð matvæli og drykkjarvörur, byggingavörur (15%), varahluti í bíla (15%), stærri heimilistæki svo sem ísskápa eða þvottavélar (20%) auk annarra raftækja eins og sjónvörp og hljómflutningstæki (25%).

Segir í tilkynningu að niðurfelling almennra vörugjalda sé mjög til einföldunar og hún feli í sér skattalækkun fyrir heimilin og tímabært afnám úreltrar neyslustýringar. Með þessu muni verð á ýmsum algengum neysluvörum lækka verulega með jákvæðum áhrifum á verðlag.

Í kynningargögnum fjármálaráðherra er til að mynda gert ráð fyrir því að sjónvarp sem kostar 129.995 krónur í búð muni eftir breytinguna kosta 102.753 krónur eða 21%, ef álagning hjá heildsölu- og smásöluaðila helst sú sama.

VB sjónvarp ræddi við Bjarna Benediktsson um breytingar á virðisaukaskattkerfinu og lækkun tryggingagjalds.