Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi á síðustu tveimur mánuðum síðasta árs nam tæpum 590 milljörðum króna. Þetta er 5% aukning á milli ára. Heildarveltan á öllu síðasta ári í virðisaukaskattskyldri starfsemi nam 3.340 milljörðum króna og var það 3,3% aukning á milli ára.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að velta jókst í flestum atvinnugreinum á milli ára. Mest þó í námugreftri og vinnslu hráefna úr jörðu eða um 17,5% og í rekstri á gisti- og veitingastöðum sem jókst um 17,1%. Þá jókst velta í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um tæp 15%. Velta í framleiðslugreinum, svo sem í fiskveiðum og vinnslu, dróst hins vegar saman á milli ára.