*

laugardagur, 15. maí 2021
Innlent 30. júní 2014 14:18

Leggja til lækkun virðisaukaskatts af sölu kvikmynda

Mikilvægt að upplýsa almenning um kosti lögmætra nota efnis á netinu samkvæmt skýrslu um streymiþjónustu

Ritstjórn

Lagt er til að virðisaukaskattur af sölu kvikmynda á netinu verði lækkaður úr 25,5% í 7% en slíkt hefur nú þegar verið gert um sölu tónlistar. Þetta er meðal tillagna rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra sem hefur skilað af sér skýrslu um streymiþjónustu á íslandi fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni og tónlist. Auk þess er lagt til að virðisaukaskattur á myndefni eftir pöntun verði 7%, til samræmis við skatt af afnotagjöldum sjónvarpsstöðva. Þannig muni miðlun hljóð- og myndefnis með nýrri tækni bera sömu skattprósentu og þær leiðir sem fyrir voru. 

Hópurinn leggur einnig til að meiri áhersla verði lögð á að ný miðlunartækni verði notuð til að stuðla að auknu framboði löglegs efnis, þar sem hagsmunir rétthafa og notenda eru tryggðir. Þá er jafnframt mikilvægt að auka fræðslu um höfundarétt.

Samkvæmt skýrslunni er einnig mikilvægt að auka framboð af innlendu stafrænu menningarefni og tryggja textun og talsetningu erlends efnis. Þá er lagt til að farið verði í víðtæka kynningarherferð til að upplýsa almenning um kosti lögmætra nota á efni á netinu, umfram ólögmæt not. 

Stikkorð: Niðurhal