Stóran hluta 52 milljarða króna aukningar á hagnaði bankanna á milli áranna 2020 og 2021 má rekja til 39 milljarða króna viðsnúnings hreinnar virðisbreytingar. Vegna mikillar óvissu í tengslum við heimsfaraldurinn færðu bankarnir niður lánasöfn sín um alls 26 milljarða króna árið 2020 til að búa sig undirvænt útlánatap.

Þegar upp var staðið olli heimsfaraldurinn hins vegar mun minna fjárhagstjóni en óttast hafði verið og voru lánasöfnin því færð upp á við um 13 milljarða króna á síðasta ári. Þessar virðisbreytingar endurspegla einungis bókhaldsfærslur þar sem ekkert raunverulegt fé skiptir um hendur.

Á síðasta ári var vaxtamunur áfram stærsti tekjuliður bankanna, en þrátt fyrir að hafa dregist saman í prósentum nam hann alls 105 milljörðum króna vegna aukinna útlána.

Hreinar þóknanatekjur námu um þriðjungi vaxtamunatekna, eða 37 milljörðum króna, og jukust um rúma sjö milljarða króna á milli ára, eða um tæpan fimmtung. Meðal áhrifaþátta má nefna líflegt ár á mörkuðum, sem einnig skilaði bönkunum tæplega 15 milljarða króna hagnaði fjáreigna og er um að ræða þreföldun á milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .

Aukning tekjuliða bankanna á milli ára
Aukning tekjuliða bankanna á milli ára