Það mat sem kemur fram í skýrslum íslenskra greiningardeilda um félög sem skráð eru í Kauphöllina hefur áhrif á hlutabréfaverð félaganna. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. Verðmat sem kemur í kjölfar neikvæðra frétta og atburða í rekstri félaganna hefur meiri áhrif á hlutabréfaverð en verðmat sem byggjast á jákvæðum fréttum.

Nokkrar greiningardeildir á Íslandi bjóða fjárfestum ráðgjöf varðandi viðskipti með hlutabréf. Ráðgjöfin byggist að miklu leyti á niðurstöðum virðismats á bréfunum og eru greiningarnar sendar til takmarkaðs hóps fagfjárfesta og annarra aðila á markaðnum. Virðismat greiningardeilda var viðfangsefnið í mastersritgerð Söndru Bjarkar Ævarsdóttur í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands. Sandra rannsakaði þróun hlutabréfaverðs dagana í kringum birtingu 185 verðmatsgreininga frá þremur greiningardeildum á tímabilinu 2011-2014.

Ávöxtun hlutabréfa dagana fyrir og eftir birtingu verðmats frá greiningardeildunum var skoðuð gaumgæfilega og svokölluð umframávöxtun reiknuð út, en það er sú ávöxtun sem er umfram það sem búast hefði mátt við að öllu óbreyttu.

1% umframávöxtun

Af greiningunum 195 fjölluðu 80 um jákvæðar fréttir í rekstri félaganna og 43 um neikvæðar fréttir. Um 30% jákvæðra og neikvæðra greininga reyndust hafa marktæk áhrif á hlutabréfaverð daginn sem þær voru birtar. Sama dag og jákvæð greining var birt um tiltekið félag í Kauphöllinni var að jafnaði 1,0% jákvæð umframávöxtun á hlutabréfum félagsins. Sama dag og neikvæðar greiningar voru birtar var hins vegar 0,9% neikvæð umframávöxtun að jafnaði. Þegar staðan var tekin tíu dögum eftir birtingu verðmats birtist hins vegar nokkuð önnur mynd.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .