Fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnun fela í sér verulega áhættu fyrir Landsbankann. Mat sérfræðinga bankans er að tæplega 18,4% af heildarútlánasafni bankans verði fyrir beinum áhrifum, alls nema útlánin 114,4 milljörðun. Er það metið svo að tap eða virðisrýrnun lána til sjávarútvegsfyrirtækja muni nema 25 milljörðum króna eða um 22% af upphæðinni. Þetta kemur fram í umsögn Landsbankans um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, og lesa má hér að neðan.

Í umsögninni er alfarið lagst gegn breytingunum og þær sagðar skaða bæði bankann og sjávarúveginn í heild. „Í ljósi framangreinds er það mat Landsbankans að endurskoða þurfi frumvarpið frá grunni þar sem tillögur þess, ef samþykktar verða, muni fela í sér skerðingu á hagkvæmni í sjávarútvegi og rýra lífskjör í landinu. Jafnframt lýsir Landsbankinn yfir sérstökum áhyggjum af þeim áhrifum sem samþykkt frumvarpsins hefði á fjárhagsstöðu bankans og þar með á fjárhagslegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið, stærsta hluthafa bankans,“ segir í lokaorðum umsagnarinnar.

Umsögn Landsbankans í heild:

Efni: Umsögn Landsbankans hf. um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál.

1. Inngangur

Þann 20. júní sl. sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Landsbankanum hf. til umsagnar frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál.

Verulegur hluti af starfsemi Landsbankans tengist með einum eða öðrum hætti fjármögnun í sjávarútvegi hér á landi. Lagareglur um stjórn fiskveiða hafa því mikla þýðingu fyrir Landsbankann hvort sem litið er til fjárhagslegrar stöðu bankans eða þeirra skilyrða sem sjávarútvegi verða búin til framtíðar, enda munu þau hafa afgerandi áhrif á rekstrarafkomu bankans á komandi árum.

Landsbankinn lýsir yfir miklum áhyggjum af frumvarpinu. Eins og reifað verður í umsögn þeirri sem hér fer á eftir er það mat bankans að þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu muni skapa lakari rekstrarskilyrði í sjávarútvegi og draga úr hagkvæmni í greininni. Jafnframt er það mat Landsbankans að frumvarpið feli í sér veruleg neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu bankans og þar með samsvarandi neikvæð fjárhagsleg áhrif á íslenska ríkið sem stærsta hluthafa bankans.

Umsögnininni er skipt í tvo meginþætti. Í fyrri hluta umsagnarinnar er fjallað um áhrif frumvarpsins, ef samþykkt verður, á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í síðari hluta umsagnarinnar er gerð grein fyrir áhrifum frumvarpsins á fjárhagsstöðu og rekstarafkomu Landsbankans.

2. Áhrif frumvarpsins á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi og nýtingu sjávarauðlinda

2.a     Meginmarkmið fiskveiðistjórnunar á að vera hagkvæm nýting sjávarauðlinda

Meginmarkmið fiskveiðistjórnunar á Íslandi hefur í gegnum árin verið að stuðla að hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum. Þetta markmið kemur fram í 1. gr. frumvarpsins. Þetta telur Landsbankinn vera mikilvægasta markmið fiskveiðistjórnunarkerfisins þar sem það hámarkar að öðru óbreyttu þjóðhagslegan ábata af fiskveiðum. Nokkur mikilvæg ákvæði frumvarpsins ganga hins vegar þvert á þetta markmið, m.a. takmörkun nýtingarréttar, bann við framsali, bann við veðsetningu og aukin völd sjávarútvegsráðherra við úthlutun aflaheimilda.

2.b    Takmarkanir á framsali og bann við veðsetningu hafa mikil áhrif á framtíðarlánveitingar til íslensks sjávarútvegs

Frumvarpið, einkum ákvæði þess um takmarkanir á framsali og bann við veðsetningu aflaheimilda, veldur óvissu um framtíðarlánveitingar til íslensks sjávarútvegs. Verðmæti þeirra eigna sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa lagt að veði sem tryggingu fyrir lánum á síðustu árum hefur að langstærstum hluta byggst, þó með óbeinum hætti sé, á aflaheimildum. Aflaheimildir hafa fylgt veðsettum skipum en hægt hefur verið að flytja heimildirnar yfir á önnur skip með samþykki veðhafa. Með frumvarpinu er fótunum kippt undan þessum möguleika fyrirtækjanna. Slík tilhögun mun án efa gera fjármögnun íslensks sjávarútvegs bæði erfiðari og dýrari. Að öðru óbreyttu fæli þetta jafnframt í sér að lánveitingar Landsbankans til sjávarútvegs myndu dragast saman vegna þess að tryggingar fyrir lánum verða lakari en áður.

Útgerð er mjög fjármagnsfrekur rekstur og stofnkostnaður útgerðar vegna fjárfestinga í skipum og aflaheimildum hár. Engum blöðum er því um það að fletta að bann við veðsetningu aflaheimilda dregur úr hvata og minnkar möguleika til nýfjárfestinga, enda þyrfti þá að fjármagna fjárfestingar að miklu leyti með eigin fé. Þetta væri óheppileg þróun enda veldur fjármagnsskipan fyrirtækja sem einkennist af miklu eigin fé og litlu lánsfé minni arðsemi eigin fjár að teknu tilliti til arðsemi heildareigna. Því dregur óhjákvæmilega úr áhuga manna að ráðast í útgerð og takmarkanir á framsali og bann við veðsetningu hindra með beinum hætti nýliðun í greininni.

Óhætt er því að segja að verði ákvæði frumvarpsins um bann við veðsetningu og takmarkanir á framsali aflaheimilda að lögum hefði það í för með sér að reistur yrði múr í kringum núverandi handhafa aflaheimilda. Mun erfiðara yrði þá fyrir hagkvæm fyrirtæki að koma inn í greinina og leysa óhagkvæmari rekstur af hólmi. Greinin í heild yrði því óhagkvæmari en ella.

Flestir sérfræðingar í auðlindahagfræði eru sammála um að framsal aflaheimilda skipti miklu máli fyrir hagkvæmni íslensks sjávarútvegs. Með framsalinu sé tryggt að hagkvæmni greinarinnar aukist jafnt og þétt til lengri tíma og að þeir óhagkvæmu heltist fyrr eða síðar úr lestinni. Reynslan af íslenska aflamarkskerfinu hefur með óyggjandi hætti sýnt fram á þetta. Það var fyrst eftir að framsal aflaheimilda var leyft sem varanlegur arður skapaðist og hin svokallaða auðlindarenta varð að veruleika. Fyrir þann tíma var rekstur flestra sjávarútvegsfyrirtækja í járnum þrátt fyrir að þau veiddu almennt meiri afla þá en í dag.

Hagkvæm nýting sjávarauðlinda er alls ekki sjálfgefin og ræðst að mestu leyti af þeim leikreglum og skilyrðum sem sjávarútveginum eru sköpuð. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er vandséð annað en verið sé að færa kerfið áratugi aftur í tímann. Hugsanlegt er að hagkvæmnin muni ekki minnka hratt en óhjákvæmilega mun það gerast með tíð og tíma. Kerfið mun á endanum leita nýs jafnvægis og að mati sérfræðinga Landsbankans verður það óhagkvæmara í þjóðhagslegu tilliti en það er í dag.

2.c     Stuttur nýtingartími hefur neikvæð áhrif

Í frumvarpinu er kveðið á um að gerður verði 15 ára nýtingarsamningur við núverandi handhafa aflaheimilda og að sömu handhafar geti „óskað eftir viðræðum" um að sá tími verði framlengdur í 23 ár. Hinn stutti nýtingartími, sem lagður er til í frumvarpinu, er í engu samræmi við nauðsynlega langtímafjármögnun í sjávarútvegi. Almennt verður að gera þá kröfu að nýtingarheimild, t.d. samkvæmt leigusamningi eða öðrum afnotasamningi, sé til mun lengri tíma en sem nemur líftíma lána sem ætlað er að fjármagna starfsemina. Hinn stutti nýtingartími hefði því þær afleiðingar að stytta yrði endurgreiðslutíma lána til sjávarútvegsfyrirtækja, og þar með að torvelda langtímafjármögnun. Hvati handhafa aflaheimilda til að hámarka arðsemi sjávarauðlindarinnar til lengri tíma litið mun að mati bankans minnka verulega verði þessi tillaga að veruleika. Langtímasjónarmið munu verða undir á kostnað skammtímasjónarmiða handhafa nýtingarréttar á hverjum tíma og það mun koma niður á langtímaafrakstri auðlindarinnar fyrir þjóðarbúið.

Mikilvægi íslensks sjávarútvegs er óumdeilt. Gjaldeyristekjur hans standa undir tæpum helmingi af innflutningi landsmanna. Lægri arðsemi af auðlindinni í heild mun því hafa í för með sér að lífskjör landsmanna versna.

2.d    Hækkun veiðigjaldsins

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðigjald verði hækkað um 100%, eða um 3,3 milljarða króna. Þessi hækkun mun hafa mest áhrif annars vegar á þau fyrirtæki sem eingöngu stunda veiðar og hins vegar á þau fyrirtæki þar sem reksturinn er nú þegar í járnum.

Landsbankinn tekur undir niðurstöðu sérfræðihópsins þar sem lögð er áhersla á að ekki sé hægt að horfa á gjaldtökuna í afmörkuðu tilliti heldur verði hún að taka mið af öðrum þáttum sem mynda umgjörð fiskveiðistjórnunarkerfisins. [1] Ef þær tillögur í frumvarpinu sem kveða á um breytingar á þeirri umgjörð yrðu samþykktar yrði verulega dregið úr rekstrarhagkvæmni, fjármögnunarmöguleikum og langtímahagkvæmni eins og rakið er hér að ofan. Þær breytingar myndu þar með leiða til skerðingar á auðlindarentunnni og draga úr getu fyrirtækja í sjávarútvegi til að standa undir aukinni gjaldtöku. Hækkun veiðigjaldsins verður því að vera hófleg að teknu tilliti til heildaráhrifa breytinga sem mælt er fyrir um í frumvarpinu.

3          Áhrif frumvarpsins á fjárhagsstöðu og rekstarafkomu Landsbankans

3.a     Veruleg áhætta fyrir Landsbankann

Sjávarútvegur kallar á miklar fjárfestingar og langtímafjármögnun.  Aðferðarfræði við mat Landsbankans á virði lána til sjávarútvegsfyrirtækja tekur hverju sinni mið af núvirtu áætluðu greiðslustreymi þeirra til bankans í framtíðinni. Greining bankans beinist að því að skoða heildaráhrif á þetta greiðslustreymi á grunni fyrirliggjandi frumvarps og nýsamþykktra laga nr. 70/2011, um breytingar á stjórn fiskveiða. Mat sérfræðinga bankans er að tæplega 18,4% af heildarútlánasafni bankans eins og það er metið við lok fyrsta ársfjórðungs 2011 verði fyrir beinum áhrifum. Um er að ræða lánasafn sem nemur 114,4 milljörðum króna. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og að gefnum ákveðnum forsendum, s.s. að ekki komi til endurnýjunar á aflaheimildum til lántaka og miðað við 15 ára greiðslustreymi, er það mat sérfræðinga bankans að tap eða virðisrýrnun lána til sjávarútvegsfyrirtækja muni nema 25 milljörðum króna eða um 22% af fyrrgreindri upphæð. [2

Helstu áhrifaþættir fyrirliggjandi frumvarps og laga nr. 70/2011 á lánasafn Landsbankans eru nýtingarsamningar við útgerðarfyrirtæki til 15 ára, hækkun veiðigjalds, fyrning aflaheimilda og óvissa um aðgengi bankans að veðum komi til gjaldþrots útgerðar. Í matinu er gert ráð fyrir 1% gjaldþrotalíkum og að sjávarútvegsráðherra myndi leysa til sín aflaheimildir viðkomandi fyrirtækis ef til gjaldþrots kæmi.

Niðurstöður næmnigreiningar á áhrifum gjaldþrotalíka á vænt tap eru eftirfarandi:

Gjaldþrotalíkur Vænt tap (ma. kr.)

0%                                                    19,547

1%                                                     25,440

2%                                                     30,875

Niðurstöður næmnigreiningar á áhrifum gjaldþrota á vænt tap leiða í ljós að jafnvel þó ekkert félag yrði gjaldþrota myndi áætlað tap bankans engu að síður nema 19,5 milljörðum króna. Tapið helgast að mestu leyti að því að bankinn gerir ekki ráð fyrir neinu framtíðargreiðslustreymi af lánum til fyrirtækja í sjávarútvegi að 15 árum liðnum.

Hér horfir bankinn til varúðarsjónarmiða. Það verður þó aldrei þannig að greiðslustreymi allra fyrirtækjanna hverfi að 15 árum liðnum enda ljóst að einhverjir munu stunda veiðar. Bankinn hefur á hinn bóginn ekkert í hendi með hversu hátt hlutfall fyrirtækjanna mun fá áframhaldandi nýtingarrétt og útilokað að gefa sér forsendur um það hlutfall. Í þessu ákvæði, þ.e. um 15 ára nýtingartíma án nokkurra fyrirheita um áframhaldandi nýtingartíma að þeim tíma liðnum, endurspeglast því sú mikla óvissa sem frumvarpið felur í sér fyrir þá sem hagsmuni hafa af íslenskum sjávarútvegi.

Áhrif frumvarpsins verða mun meiri en áhrifin af lögum nr. 70/2011. Áætlað tap bankans af þeim lögum er um 1,8 milljarðar króna en verði frumvarpið einnig að lögum bætast við 23,6 milljarðar þannig að samanlagt tap yrði þá 25,4 milljarðar að gefnum ofangreindum forsendum.

Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að í þessu mati hefur ekki verið tekið tillit til þess taps sem bankinn kann að verða fyrir vegna annarra lántakenda, einstaklinga og fyrirtækja sem eiga beint og óbeint afkomu sína undir íslenskum sjávarútvegi. Áætlað tap er því líklega vanmetið frekar en ofmetið.

Það tap sem hér hefur verið nefnt myndi hafa í för með sér nokkra lækkun á eigin fé Landsbankans. Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig áhrifin verða á samstæðu Landsbankans.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans Samstæða

Fyrir breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu             20,4%

Eftir breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu              18,2%

Breyting                                                                    -2,2%

3.b    Aukin óvissa um fjármögnun og fjármögnunarkostnað Landsbankans

Að mati Landsbankans mun samþykkt frumvarpsins auka mjög óvissu um fjármögnun bankans, og að öðru óbreyttu mun fjármögnunarkostnaður hans hækka. Viðamesta fjármögnun Landsbankans hf. fékkst með útgáfu skuldabréfa til þrotabús Landsbanka Íslands hf. (LBI), annars vegar stóra almenna skuldabréfsins (skuldabréfanna) og hins vegar skilyrta skuldabréfsins svokallaða.

Í samningi Landsbankans og LBI er kveðið á um gjaldfellingarákvæði vegna trygginga LBI fyrir endurgreiðslu stóra skuldabréfsins. Þar er ákvæði sem kveður á um að 30-50% af heildarveðsetningunni skuli koma frá sjávarútvegi. Í dag nemur hlutfall veðsetningar frá sjávarútvegi 34,2%. Verði frumvarpið að lögum er það mat bankans að hlutfallið færi niður fyrir 30%. LBI gæti þá gjaldfellt bréfið en upphæð þess nam jafnvirði 276,8 milljörðum króna þann 31. mars sl. Landsbankinn gæti þó komið í veg fyrir beitingu gjaldfellingarákvæðisins með því að greiða strax hluta af stóra skuldabréfinu. Verði frumvarpið að lögum þyrfti Landsbankinn að greiða niður skuldabréfið til þrotabús Landsbanka Íslands hf. um 54,8 milljarða króna til þess að veðsetningarhlutfall sjávarútvegsins yrði áfram 34,2%, en 23,7 milljarða til að ná því upp fyrir umsamin 30% mörk. Landsbankinn þyrfti því að reiða fram umtalsverða fjárhæð í gjaldeyri til LBI fyrr en áætlað hefur verið.

3.c     Minna greiðslustreymi til bankans í erlendri mynt

Stóra skuldabréfið er gefið út í erlendri mynt og þarf að greiða af því í erlendri mynt. Meginuppistaða erlendra vaxtatekna Landsbankans kemur frá íslenskum sjávarútvegi og  óhjákvæmilega hefur greiðslugeta bankans í erlendri mynt versnað eftir að Alþingi samþykkti lög nr. 70/2011 um breytingar á stjórn fiskveiða. Ætla má að greiðslugeta bankans í erlendri mynt versni um fleiri hundruð milljónir króna á ársgrundvelli strax á næsta ári en sú tala mun hækka eftir því sem horft er lengra fram á veginn.

Skilyrta skuldabréfið kveður á um að verði endurheimtur af tilteknu lánasafni Landsbankans 108 milljarðar króna umfram kaupverð sama safns, muni íslenska ríkið eignast 16,58% hlut LBI í Landsbankanum þegar skuldabréfið verður gert upp í árslok 2012. Fyrirséð er að samþykkt frumvarpsins mun leiða til lækkunar á verðmæti eigna bankans en skilyrta skuldabréfið yrði samt sem áður að gefa út eins og sú lækkun hefði ekki átt sér stað, þar sem LBI hefur með samningum verið tryggt skaðleysi af stjórnvaldsákvörðunum sem þessum.

3.d       Alvarlegar afleiðingar fyrir skuldsett sjávarútvegsfyrirtæki

Í 6. gr. frumvarpsins er matskennt ákvæði sem veitir sjávarútvegsráðherra svigrúm til þess að taka tillit til fjárhagsstöðu útgerðar við samningagerð um nýtingarleyfi. Með ákvæðinu virðist ráðherra geta hafnað því að gera nýtingarsamning við útgerðarfyrirtæki á þeirri forsendu að fjárhagsstaða þess sé ekki viðunandi að mati ráðherrans. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að við framlengingu sé það skilyrði að forsendur hafi ekki breyst frá upphaflegri samningsgerð. Með vísan til breyttrar fjárhagsstöðu virðist ráðherra því getað neitað útgerð um framlengingu nýtingarsamnings enda er sérstaklega áréttað í greinargerð að ,,...ekki er um skýlausan rétt til framlengingar samnings að ræða..." þótt fyrirtæki eigi rétt á viðræðum um lengri samning.

Þau fyrirtæki sem lenda í verulegum greiðsluörðugleikum vegna lagabreytinganna myndu líklega óska eftir auknum afskriftum skulda þannig að þau standi undir lánum og eigi möguleika á nýtingarsamningum eða framlengingu þeirra. Í mörgum tilvikum yrði um að ræða sömu fyrirtæki og farið hafa í gegnum endurskipulagningu hjá bankanum og þegar fengið afskriftir.

Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að nýtingarsamningar verði einungis til 15 ára er hætt við að erfiðara yrði að framlengja og/eða endurskipuleggja núverandi lán sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta myndi draga úr möguleikum á að leysa vanda skuldsettustu sjávarútvegsfyrirtækjanna.

3.e       Óvissa um fullnustu tryggingarréttinda

Í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir: „Hafi réttindi sem óheimilt er að veðsetja skv. 1. mgr. þegar verið skráð með samningi á veðsett skip eða annað fjárverðmæti fyrir gildistöku laga þessara og ekki má skilja þau frá því skv. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, heldur slík veðsetning gildi sínu."

Við fyrstu sýn virðist sem þetta ákvæði tryggi rétt bankans hvað varðar þau veð sem þegar hefur verið þinglýst. Ákvæðið verður hins vegar merkingarlaust þegar það er skoðað í samhengi við aðrar greinar frumvarpsins, m.a. vegna þeirrar grundvallarbreytingar sem gerð er með frumvarpinu þar sem rétturinn til nýtingar aflaheimilda fæst eingöngu með gerð nýtingarsamninga.

Nýtingarsamningar eru sem fyrr segir eingöngu gerðir við þær útgerðir sem uppfylla ákveðin skilyrði, sem þýðir að skip getur verið með skráða aflahlutdeild án þess að útgerðin hafi rétt til þess að nýta hana. Af þessu leiðir, verði frumvarpið að lögum, að ekki virðist gert ráð fyrir því að aflahludeild sem ekki hefur verið gerður nýtingarsamningur um hafi sjálfstætt verðgildi.

Í fullnustu trygginga felst almennt að veðhafi leysir til sín hið veðsetta á grundvelli veðréttarins þannig að eignarhald færist frá viðkomandi félagi og til veðhafa. Í 7. gr. frumvarpsins kemur hins vegar fram að varanlegt framsal aflahlutdeilda er óheimilt nema í ákveðnum og mjög afmörkuðum undantekningartilvikum. Í bráðabirgðaákvæði VI við frumvarpið segir jafnframt: „Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. er á fiskveiðiárunum 2011/2012 til og með 2026/2027 heimild til framsals aflahlutdeildar háð samþykki ráðherra og sætir eftirfarandi takmörkunum, enda leiði flutningur aflahlutdeildar og annarra réttinda ekki til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess..."

Af ofangreindu leiðir að bankanum virðist ekki heimilt að leysa til sín þau verðmæti sem felast í skipum sem hafa verið veðsett án atbeina ráðherra, þótt skilyrði fullnustu séu uppfyllt.

Í framangreindu bráðabirgðaákvæði segir einnig að ráðherra hafi forleigurétt og skuli verðið miðast við samningsverð eða viðmiðunarverð, hvort sem er lægra. Falli ráðherra frá þeim rétti öðlast sveitarfélagið þar sem framseljandi hefur lögheimili forleigurétt á þeim réttindum sem eru andlag framsals. Falli ráðherra og sveitarfélag frá forleigurétti, skulu framseljandi og framsalshafi senda Fiskistofu beiðni um staðfestingu á heimild til framsals réttinda. Fiskistofa gerir í kjölfarið samning við samningshafa um nýtingarleyfi á aflaheimildum og staðfestir þar með heimildina til varanlegs framsals.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að sjávarútvegsráðherra sé ætlað töluvert svigrúm við ákvörðun um hvort hann nýti forleigurétt, þótt gera verði ráð fyrir að hann gæti ávallt jafnræðis við slíka ákvörðunartöku og að baki henni liggi byggðasjónarmið og/eða önnur málefnaleg sjónarmið.

Þar að auki mun verð aflahlutdeildanna, ákveði sjávarútvegsráðherra eða sveitarfélag að nýta sér forleigurétt, ráðast af sérstöku viðmiðunarverði sem ákveðið verður með reglugerð fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs. Í greinargerðinni kemur fram að verðið muni taka mið af verði landaðs afla sem og markaðsverði á leigðu aflamarki, en að öðru leyti virðist ráðherra hafa svigrúm til þess að ákveða viðmiðunarverðið fyrir hvert ár.

Þá er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á því að í framangreindu bráðabirgðaákvæði kemur fram að til framsals aflahlutdeilda teljist allur flutningur aflaheimilda milli lögaðila, þ.m.t. flutningur aflaheimilda til annars lögaðila við gjaldþrot. Komi því til gjaldþrots sjávarútvegsfyrirtækis, mun ráðherra hafa forræði á ráðstöfun aflahlutdeilda og gerð nýtingarsamnings um þær og óljóst er hvort leita þurfi fyrirfram samþykkis veðhafa yfir höfuð, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum um samningsveð. Öll þessi ákvæði eru því verulega íþyngjandi fyrir lánveitandann, rýra veðstöðu hans og lækka verðgildi eigna.

4.         Lokaorð

Í ljósi framangreinds er það mat Landsbankans að endurskoða þurfi frumvarpið frá grunni þar sem tillögur þess, ef samþykktar verða, muni fela í sér skerðingu á hagkvæmni í sjávarútvegi og rýra lífskjör í landinu. Jafnframt lýsir Landsbankinn yfir sérstökum áhyggjum af þeim áhrifum sem samþykkt frumvarpsins hefði á fjárhagsstöðu bankans og þar með á fjárhagslegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið, stærsta hluthafa bankans.

Virðingarfyllst,

f.h. Landsbankans

___________________________________

Steinþór Pálsson

bankastjóri

[1] Sjá „Greinargerð um hagræn áhrif af frumvarpi til nýrra laga um stjórn fiskveiða samkvæmt þingskjali 1475", 14. júní 2011, Sérfræðihópur skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bls. 6.

[2] Þessi upphæð gerir ráð fyrir að 1% fyrirtækja í greininni verði gjaldþrota á hverju ári og verðmæti veðandlaga bankans, sem eru háð aflaheimildum viðkomandi félaga, verði verðlaus. Hærri tíðni gjaldþrota mun auka útlánatap verulega, t.d. er áætlað útlánatap við 2% gjaldþrotatíðni allt að 31 ma.kr. Komi hinsvegar ekki til þess að aflaheimildir verði færðar undir forræði sjávarútvegsráðherra við gjaldþrot, sbr. bráðabirgðaákvæði VI við frumvarpið, áætlar bankinn að mögulega megi takmarka bein áhrif við um 20 ma.kr. útlánatap, að því gefni að lágmarksröskun verði á nýtingu framleiðsluþátta viðkomandi félaga við gjaldþrot.