Flugfélögin Virgin Atlantic og Easyjet huga nú að kaupum á Gatwick flugvellinum í London, sem hefur verið settur á sölu af núverandi eigendum og gæti söluverðið numið um tveimur og hálfum milljarði punda.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC í morgun en samkvæmt vefnum gæti ákvörðunnar varðandi söluna verið að vænta fyrir lok næsta árs.

Núverandi eigandi Gatwick, spænska félagið BAA, verður hugsanlega neytt til sölunnar af breska samkeppniseftirlitinu en félagið rekur einnig Stansted og Heathrow, auk flugvalla í Edinborg, Glasgow, Aberdeen og Southampton.

„Ég tel að það eigi eftir að koma í ljós hve mikils virði Gatwick er í raun, ef litið er til þess að við erum í miðri niðursveiflu auk þess sem að á eftir að fara fram hlutlaust mat,“ segir Paul Charles, talsmaður Virgin Atlantic í samtali við BBC.

Hann segir enn fremur mikil tækifæri felast í því ef flugfélög standa saman að kaupunum en að hans sögn hefur Gatwick verið í aftursætinu hjá BAA, sem hafi lagt meira í viðhald á Heathrow, auk þess sem að þjónustan yrði einstaklingsbundnari hjá nýjum eigendum.