Ástralska flugfélagið Virgin Blue, sem er næst stærsta flugfélag Ástralíu á eftir Qantas, hefur tilkynnt um samninga við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing um kaup og kauprétti á 105 nýjum vélum frá Boeing. Fyrsta vélin verður afhent í júní á næsta ári og sú síðasta undir lok árs 2017.

Í raun eru nokkrar ástæður fyrir því að það þykir fréttnæmt. Í fyrsta lagi þykir það gefa til kynna að ástralski flugmarkaðurinn sé að ná sér á strik eftir töluverða niðursveiflu, svo sem hefur verið alls staðar í heiminum.

Í öðru lagi gerist það ekki á hverjum degi að eitt flugfélag panti rúmlega 100 vélar frá einum framleiðanda í einni pöntun og í þriðja lagi þykir þetta nokkur sigur fyrir Boeing en bæði Boeing og evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hafa gert félaginu tilboð í vélar. Þannig má segja að pöntunin sé áfangasigur í endalausu stríði risanna tveggja, Boeing og Airbus.

Kaupverðið á vélunum er ekki gefið upp, enda er ekki venjan að gefa upp verð til einstakra flugfélaga. Forstjóri Virgin Blue, Brett Godfrey, sagði þó í samtali við bresku fréttastofuna BBC að verðið væri „aðlagandi“ og að félagið hefði vissulega nýtt sér þá niðursveiflu sem verið hefur í pöntunum á nýjum vélum.

Um er að ræða kaup á 50 nýjum Boeing 737-800 vélum. Auk þess gerði félagið samning um forkaupsrétt á 25 öðrum vélum og kauprétt á 30 vélum til viðbótar. Vélarnar verða bæði notaðar til að endurnýja allan flugflota Virgin Blue auk þess sem félagið hyggst taka upp nýjar flugleiðir og auka flugtíðni á milli staða ef tilefni þykir til.

Í þessu samhengi má til gamans geta að Icelandair hyggst endurnýja sinn flota eftir um 4-6 ár. Félagið notar nú Boeing 757-200 (og eina 757-300 sem er aðeins lengri en 200 línan) og hyggst nota þær til ársins 2015 í það minnsta, enda vélarnar enn nýlegar og með nýjum innréttingum. Eftir árið 2015 er hins vegar kominn tími á endurnýjum og þar sem hætt er að framleiða Boeing 757 vélar er ljóst að félagið þarf að kaupa aðra tegund. Hvort félagið mun kaupa vélar frá Boeing, Airbus eða öðrum framleiðanda mun tíminn einn leiða í ljós.