Hópur fjárfesta undir forystu Richards Branson, eiganda Virgin Group, mun fá forgangsrétt til að gera yfirtökutilboð í breska bankann Northern Rock, eitt helsta fórnarlamb lausafjárkrísunnar frá því í sumar. Þetta kom fram í tilkynningu sem Northern Rock sendi frá sér í gær, en gengi bréfa í bankanum hækkaði um allt að 48% í kjölfarið. Við lokun kauphallarinnar í London í gær stóð gengi bréfa í bankanum í 110 pensum á hlut, hafði hækkað um 28%.

Tillaga Virgin gerir ráð fyrir því að félagið borgi 11 milljarða punda til baka við sjálfa yfirtökuna, af þeim tæplega 25 milljörðum punda sem talið er að Northern Rock hafi fengið að láni frá Englandsbanka. Afgangurinn verður síðan greiddur að öllu leyti til baka á næstu þremur árum. Tilboð Virgin nýtur jafnframt stuðnings breskra stjórnvalda, en Alistair Darling, fjármálaráðherra, hafði lýst því yfir í síðustu viku að hann myndi beita neitunarvaldi á öll yfirtökutilboð í bankann sem ekki tryggðu endurgreiðslu á þeirri upphæð sem Northern Rock fékk að láni frá Englandsbanka.

Nánar er fjallað um mál Northen Rock í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins í dag og á morgun.