Fjölmiðlafyrirtækið Virgin Media sagði frá því í gær að félagið hefði lagt fram kæru á hendur bresku fjölmiðlasamsteypunni Sky. Ástæðan fyrir kærunni eru deilur vegna þess verðs sem Sky vill rukka fyrirtækið fyrir að senda út útsendingar á sjónvarpsrásum þess.

Virgin segir að Sky misnoti markaðsráðandi stöðu sína til þess að rukka fyrirtækið um margfalt hærra verð heldur en eðlilegt geti talist fyrir að senda út nokkrar af sjónvarpsrásum Sky, sem meðal annars sýna vinsæla þætti á borð við Simpson og Lost. Becket McGrath, lögfræðingur á sviði samkeppnisréttar, sagði í samtali við Dow Jones fréttastofuna í gær að til þess að Virgin gæti átt möguleika á að vinna málið þyrfti félagið hvort tveggja að færa sönnur á það að Sky hefði markaðsráðandi stöðu og hefði auk þess misnotað hana. Taldi hann að það slíkt myndi reynast mjög erfitt.