Virgin Orbit, gervihnattarfyrirtæki Richard Branson, er metið á 3,2 milljarða dala, sem jafngildir 410 milljörðum íslenskra króna, í fyrirhuguðum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (SPAC) NextGen Acquisition II. Með því mun fyrirtækið verða skráð í New York kauphöllina. Samningurinn mun veita gervihnattafyrirtækinu 483 milljónir dala af lausafé, en Boeing er meðal fjárfesta. Skynews greinir frá.

Branson fór sambærilega leið með geimflaugafyrirtækið sitt Virgin Galactic sem var skráð á bandaríska hlutabréfamarkaðinn árið 2019 í gegnum Spac samruna.

Virgin Orbit notast við sérhannaða Boeing 747 flugvél sem hreyfanlegan skotpall. Fyrirtækið segir að þessi leið veiti þeim verulegt forskot við jarðbundna skotpalla, ásamt því að draga úr kolefnislosun og hljóðtruflunum. Í janúar síðastliðnum skaut Virgin Orbit á loft 10 smáum NASA gervihnöttum í geiminn frá höfuðstöðvum sínum í Kaliforníu.

Virgin Orbit er í dag í 80% eigu Virgin Group og 20% eigu Mubadala, þjóðarsjóði Abú Dabí furstadæmisins. Þeir munu halda 85% hlut í gervihnattafyrirtækinu en almennir fjárfestar geta eignast allt að 10% hlut í félaginu. Aðrir fjárfestar líkt og Boeing, sem munu leggja fram 100 milljónir dala sem hluti af samningunum, munu eignast restina af hlutafénu ásamt aðstandendum sérhæfða yfirtökufélagsins.