Virgin Atlantic Ariways mun leggja niður þriðjung allra starfa í félaginu, eða 3.150 störf og loka starfsemi sinni á Gatwick flugvelli meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur.

Richard Branson stofnandi flugfélagsins segir að félagið muni einblína á starfsstöð sína á Heathrow flugvelli Lundúna sem og Manchester þó félagið vilji halda í lendingartímana á Gatwick flugvelli þegar flugstarfsemi geti hafist að nýju.

Félagið mun jafnframt hætta notkun sjö Boeing 747 jumbóþotna en félagið stefnir að því að leggja einnig fjórum Airbus A330 vélum árið 2022, þannig að flotinn mun eftir það standa saman af 36 tveggja hreyfla vélum af nýrri gerðum.

Shai Weiss forstjóri félagsins segir niðurskurðinn nauðsynlegan nú þegar félagið horfir fram á minnkandi eftirspurn þriðja árið í röð og segir hann að á 36 ára starfstíma félagsins hafi enginn stormur verið félaginu jafnerfiður og afleiðingar veirufaraldursins.

„Til að tryggja framtíð okkar og koma út sem hagnaðardrifið og sjálfbært fyrirtæki, þá er tíminn núna til að grípa til frekari aðgerða til að draga úr kostnaði, tryggja lausafjárstöðu og vernda eins mörg störf og hægt er,“ hefur Bloomberg fréttaveitan eftir honum.

Keppinautar Virgin í British Airways stefna að því að skera niður svipað hlutfall starfsmanna sinna, eða 30%, með uppsögnum 12 þúsund starfsmanna, en félagið hyggst einnig loka starfsemi á Gatwick flugvelli. Sá flugvöllur fær minna til sín af farþegum í viðskiptaerindum.

Ferðaþjónustukeðja Branson fer nú í gegnum erfiða tíma líkt og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu, en eitt félaga hans, Virgin Australia Holdins, sem stofnað var árið 2000, hefur nú verið tekið til gjaldþrotameðferðar.

Virgin Holidays mun til að mynda loka 15% af sölustöðvum sínum og verður félagið fært undir hatt flugfélagsins. Segir Weiss aðgerðirnar nauðsynlegar til að ná að skila hagnaði á næsta ári.