Eignarsafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) metur eignir síðar á 491 milljarð króna. Eignir félagsins voru 42 prósent af heildarefnahag Seðlabanka Íslands í árslok 2009. Þetta kemur fram í ársskýrslu Seðlabankans sem birtur var á fimmtudag.

ESÍ er dótturfélag Seðlabankans sem var sett á fót undir lok síðasta árs. Eignir félagsins samanstanda af kröfum Seðlabankans á innlend fjármálafyrirtæki. Þorri þeirra er tilkomin vegna hinna svokölluðu veðlána. Ríkissjóður keypti hluta krafnanna af Seðlabankanum eftir bankahrun til að forða Seðlabankanum frá gjaldþroti og afskrifaði stóran hluta þeirra í ársreikningi 2008.

Í lok árs 2009 var síðan tekin ákvörðun um að flytja eignirnar aftur yfir til Seðlabankans og inn í dótturfélagið ESÍ. Annað dótturfélag Seðlabankans, Sölvhóll ehf., hefur síðan það hlutverk að hámarka virði þeirra eigna sem eru inni í ESÍ og koma þeim í verð þegar markaðsaðstæður leyfa. Sala eignanna er þó háð samþykki stjórnar ESÍ.