Hrein eign íslenskra lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris var 1.797 milljarðar króna í lok janúar og jukust um ellefu milljarða króna á milli mánaða. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabanka Íslands um eignir lífeyrissjóða sem birtar voru í síðustu viki.

Virði fyrirtækjaskuldabréfa í eigu lífeyrissjóðanna er sagt vera um 127,5 milljarðar króna og eykst um rúma 800 milljónir króna frá árslokum 2009. Það þýðir að lífeyrissjóðir landsins hafa fært niður virði fyrirtækjaskuldabréfa sinna um tæpan þriðjung frá bankahruni þrátt fyrir að á þriðja tug fyrirtækja sem gáfu út slík skuldabréf eru í dag gjaldþrota, í endurskipulagningarferli eða hafa gengið í gegnum nauðasamninga.

Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðurinn Gildi eiga þorra fyrirtækjaskuldabréfanna, en þeir halda á um helming allra eigna íslenskra lífeyrissjóða.