Markaðsvirði Haga var 22,6 milljarðar króna í október 2009 ef miðað er við það verð sem þrír lykilstjórnendur fyrirtækisins fengu fyrir bréf sín í því. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst voru það síðustu viðskipti sem áttu sér stað með bréf í fyrirtækinu.

Virði Haga hafði þá lækkað um tæpa átta milljarða króna á rúmu einu ári, en það var um 30,5 milljarðar króna í september 2008 þegar fyrirtækið keypti líka bréf af sömu stjórnendum. Síðan þessi viðskipti áttu sér stað hefur Arion banki selt hluta af eignum Haga til Jóhannesar Jónssonar. Um er að ræða 50% eignarhlut í færeysku matvöruverslunarkeðjunni SMS og sérvörubúðirnar Top Shop, Zara og All Saints. Kaupverðið var 1.237 milljónir króna og var sagt nokkuð hærra en bókfært verðmæti þessara eigna.