Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru fluttar inn vörur fyrir 39,9 milljarða kr. í maí sem er lítillega minni útflutningur en í aprílmánuði. Fluttar voru út vörur fyrir 39,3 milljarða kr. en aldrei fyrr hefur virði útflutnings verið jafn mikið í einum mánuði eins og bent er á í vefriti fjármálaráðuneytisins. Hallinn á vöruviðskiptunum er því einungis um 600 milljónir í maí sem er töluverður bati frá fyrri mánuði þegar hann var 7,3 milljarðar kr. eins og bent er á í vefritinu.

Mikil aukning í útflutningi kemur til vegna stóraukins útflutnings á áli og vefritið bendir á að Alcoa Fjarðarál sé nú loks komið í fulla framleiðslugetu en gangsetningu allra rafgreiningarkera álversins lauk í apríl sl. Heimsmarkaðsverð á áli er auk þess hátt um þessar mundir líkt og verið hefur það sem af er ári. Útflutningur sjávarafurða er einnig mikill líkt og verið hefur en hann dregst þó lítillega saman frá fyrri mánuði þegar útflutningsvirði sjávarafurða náði sögulegu hámarki. Verð sjávarafurða er með hærra móti auk þess sem lágt gengi íslensku krónunnar hefur góð áhrif á afkomu sjávarútvegsins.

Innflutningur vöru var einnig með mesta móti í maí. Innflutningur á hrá- og rekstrarvörum eykst jafnt og þétt og munar þar mestu um aukinn innflutning á áloxíði. Innflutningur á mat- og drykkjarvörum er með mesta móti og ljóst að lágt gengi krónunnar eykur innflutningsvirði á nauðsynjavarningi töluvert. Innflutningsvirði varanlegra og hálf-varanlegra neysluvara dregst nú saman eftir að hafa aukist fyrst eftir gengisfall krónunnar í mars sl. Eru þetta augljós áhrif lágs gengis krónunnar og erfiðra aðstæðna á lánamörkuðum um þessar mundir.Athygli skal vakin á því að mat á hreyfingum undirliða inn- og útflutnings er byggt á eigin útreikningum en ekki bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.