Fyrirtaka í meiðyrðamáli Pálma Haraldssonar gegn Svavari Halldórssyni, fréttamanni á Rúv, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.  Pálmi stefndi Páli Magnússyni úvarpsstjóra og Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttaþuli til vara í málinu.

Í frétt Svavars frá 25. mars síðastliðinn var greint frá láni sem Fons fékk hjá Glitni uppá 2,5 milljarða króna, sem virtust hafa týnst.

Í greinargerð lögmanns Maríu Sigrúnar og Páls í málinu segir að leiða megi að því líkur að virðing almennings fyrir Pálma Haraldssyni hafi verið takmörkuð og ímynd hans miður góð eftir hrun bankanna. Megi nefna að Glitnir hafi höfðað mál á hendur Pálma ásamt öðrum í New York og hann hafi viðurkennt í viðtali við DV að hafa tekið þátt í siðferðilega vafasömum viðskiptum og átt þátt í bankahruninu.

„Stefnandi er í hópi manna, sem hafa verið úthrópaðir á spjallsíðum, í fjölmiðlum og víðar, hús þeirra ötuð málningu og hróp að þeim gert.  Má leiða að því líkur að virðing almennings fyrir stefnanda hafi verið takmörkuð og ímynd hans miður góð eftir hrun bankanna í október 2008.  Þá má nefna að Glitnir banki hf. hefur höfðað mál á hendur stefnanda ásamt öðrum í New York og stefnandi hefur viðurkennt í viðtali við DV að hafa tekið þátt í siðferðilega vafasömum viðskiptum og að eiga þátt í bankahruninu.  Stefnandi getur þannig ekki með nokkru móti haldið því fram að mannorð hans sé óflekkað eða æra hans ómenguð,“ segir í greinargerð Viðars Lúðvíkssonar, lögmanns Maríu Sigrúnar og Páls.

Segir að ekki verði séð að ummæli í fréttinni um Pálma hafi valdið því að orðspor eða ímynd hans hafi skaðast. „Hér verður sérstaklega að hafa í huga að æra manns er ekki gildi manns í sjálfu sér, heldur hugmynd, dómur eða álit um þetta gildi.  Verður þannig ekki séð hvernig hin umstefndu ummæli geti með sjálfstæðum hætti hafa valdið því að orðspor eða ímynd stefnanda skaðaðist, enda eru ummælin algjörlega minniháttar og vart merkjanleg stærð í samhengi við þá stöðu, sem stefnandi hefur í íslensku viðskiptalífi og meðal almennings í dag.  Hefur stefnandi raunar alls ekki reynt að sýna fram á tjón sitt nema með almennum fullyrðingum í stefnu.  Meint tjón stefnanda er því ósannað.“

Aðalkrafa Maríu Sigrúnar og Pálma er að frávísa eigi stefnu á hendur þeim. Aðalmeðferð meiðyrðamálsins fer fram eftir áramót.