Virðing hf. hefur lokið fyrsta áfanga fjármögnunar á veðskuldabréfasjóði sem sérhæfir sig í að fjármagna fullbúið atvinnuhúsnæði.

Nú þegar hefur verið aflað skuldbindinga fyrir 9 milljarða króna í sjóðinn en fjárfestar eru margir helstu lífeyrissjóðir landsins. Lokað verður fyrir áskrift fjárfesta að sjóðnum með haustinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Veðskuldabréfasjóðurinn Virðing er lokaður fagfjárfestasjóður sem rekstarfélag verðbréfasjóða ÍV rekur. Sjóðurinn fjármagnar fullbúið atvinnuhúsnæði með löngum verðtryggðum skuldabréfum og veitir fjárfestum því aðgang að vel dreifðu safni veðskuldabréfa.

Fjárfestingarráð sjóðsins skipa Baldur Vilhjálmsson, sjóðsstjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Stafa og Friðjón Rúnar Sigurðsson.

Friðjón verður formaður fjárfestingarráðsins en hann hefur 15 ára reynslu í rekstri lífeyrissjóða og annarra sjóða, segir í tilkynningunni.