„Það eru mjög virk samskipti milli aðila um hvernig megi lenda þessu máli," segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, þegar hann er spurður út í stöðu Icesave-málsins.

Engin lausn sé í sjónmáli.

Málið er enn í höndum embættismanna. „Það eru ekki neinar samningaviðræður í gangi í þeim skilningi enda búið að semja og Alþingi búið að setja sína skilmála," bætir Indriði við.

Hann segir aðspurður að engir ráðherrafundir hafi verið boðaðir til að fjalla um þetta mál eingöngu.

Ekki eigi að treysta gluggagægjum

Bloggarinn, Bergur Ólafsson, hélt  því fram á bloggi sínu nýverið að Bretar og Hollendingar hefðu á fundi með íslenskum embættismönnum um síðustu mánaðamót hafnað fyrirvörum Alþingis.

Það hefði hann eftir tveimur félögum sínum sem hefðu verið um borð í sömu farþegavél og Indriði og aðrir íslenskir embættismenn á leið heim frá Kaupmannahöfn. Samninganefndin hefði verið að koma heim af fundi. Félagarnir hefðu lesið minnispunkta Indriða af fundinum á tölvuskjá hans í vélinni.

Indriði segir, þegar hann er spurður út í þetta: „Ég myndi lítið treysta gluggagægjum í flugvélum í þessum efnum. Það er margt skáldað."

Indriði segir að þarna hafi embættismennirnir verið að koma heim af sínum fyrsta upplýsingafundi um þetta mál með Bretum og Hollendingum eftir afgreiðslu Alþingis. Þeir hefðu, á þeim fundi, ekki gefið upp sína afstöðu til fyrirvaranna. „Einhverjar ályktanir um afstöðu þeirra eru því byggðar á harla litlum grunni," bætir hann við og vísar þar til bloggsins.

Indriði segir enn fremur að daginn eftir hafi fjárlaganefnd Alþingis verið upplýst um málið.

Alþingi kemur saman að nýju nú á fimmtudag og segir Indriði aðspurður að ekki liggi fyrir hvort farið verið með Icesave-málilð að nýju inn í þingið.

Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana

Sem kunnugt er samþykkti Alþingi í sumar Icesave-ríkisábyrgðina en með efnahagslegum og lagalegum fyrirvörum. Enn fremur var samþykkt það skilyrði fyrir ábyrgðinni að Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.

Íslenskir embættismenn hafa síðan þá verið í samskiptum við Breta og Hollendinga og kynnt þeim fyrirvarana og fyrir skömmu var upplýst um „óformleg viðbrögð" þeirra, eins og það var nefnt, en þau felast m.a. í því að Bretar og Hollendingar vilja tryggja að Íslendingar greiði mögulegar eftirstöðvar af Icesave-láninu árið 2024.

Alþingi setti það hins vegar í fyrirvarana að árið 2024 yrðu viðræður teknar upp að nýju um það sem hugsanlega út af stæði.