Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands gera alvarlegar athugasemdir í umsögn sinni til Persónuverndar um starfsleyfi Creditinfo. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu .

Creditinfo heldur einu eiginlegu vanskilaskrá yfir einstaklinga á Íslandi, skrá sem flestallar innlendar lánastofnanir nýta sér í tengslum við afgreiðslu erinda, hvort heldur sem er við upphaf viðskipta eða fyrirgreiðslu. Skráningin er gerð með starfsleyfi frá Persónuvernd.

Neytendasamtökin telja að svona umfangsmikil skráning viðkvæmra persónuupplýsinga væri betur farið á höndum hins opinbera. Ef stjórnvöld, hins vegar, fela einkafyrirtæki slíka skráningu telja samtökin bæði rétt og eðlilegt að ríkar skyldur séu lagðar á fyrirtækið og að óheimil vinnsla þess á persónuupplýsingum skuli teljast brot á starfsleyfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum um persónuvernd.

Nauðsynlegt að endurskoða starfsleyfi Creditinfo

Telja samtökin mikilvægt að eftirlit með starfseminni sé virkt og tryggt að brot gegn starfsleyfi fái ekki að viðgangast í margar vikur, mánuði eða jafnvel ár án þess að brugðist sé við. Af heimasíðu Persónuverndar má ráða að allir úrskurðir Persónuverndar varðandi Creditinfo eru tilkomnir vegna kvartana þriðja aðila sem telur á sér brotið eða ábendinga utanaðkomandi aðila.

Þá telja samtökin mikilvægt að viðskiptagrundvöllur Creditinfo verði skoðaður í tengslum við endurskoðun starfsleyfisins. Er þar sérstaklega horft til þess að tryggt verði að fyrirtækið hafi ekki beina verulega hagsmuni, s.s. fjárhagslega, af skráningu eða viðskiptum við innheimtufyrirtæki sem nýta sér heimild til skráningar á vanskilaskráningar.

Kann að vera nauðsynlegt að setja slíkri starfsemi og tengslum frekari skorður. Í það minnsta telja samtökin brýnt að afturköllun starfsleyfisins og beiting viðurlaga, s.s. sekta, verði í reynd virk úrræði til þess verja hagsmuni almennings.

Samtökin telja fullreynt að fyrirtækið taki sjálft frumkvæði að því að verja hagsmuni þeirra sem skráðir eru á vanskilaskrá og því sé nauðsynlegt að endurskoða starfsleyfi Creditinfo með tillit til almannahagsmuna.

Hótun um vanskilaskráningu virkar sem svipa á lántakendur

Í umsókninni segir að fyrir liggur að innheimtufyrirtækið Almenn innheimta ehf. hefur verið í viðskiptum við Creditinfo um árabil. Innheimtar voru kröfur sem byggja á ólögmætum lánum og fólk sett á vanskilaskrá að ósekju enda áttu margir lántakendur inni kröfu á kröfuhafa vegna ofgreidds kostnaðar.

Sjá einnig: Hafnar lögbannskröfu vegna smálána

„Með því ófullnægjandi fyrirkomulagi sem gildir um Creditinfo hefur Almenn innheimta ehf. geta hótað fólki með vanskilaskráningu og sett fólk á vanskilaskrá með því að klæða innheimtuna í löginnheimtubúning. Ábyrgð Creditinfo virðist engin í svona málum, þvert á móti hagnast fyrirtækið af því að eiga viðskipti við sem flesta kröfuhafa og virðist engu breyta þótt kröfuhafi sé hluti af skipulagðri brotastarfsemi á smálánamarkaði.

Þegar upp kemst um brot á starfsleyfi breytir Creditinfo um starfsaðferðir án þess að þurfa að sæta nokkurri ábyrgð á því að hafa brotið starfsleyfið. Þá telja samtökin ólíðandi að Creditinfo taki upp á því að eigin frumkvæði að skrá „höfuðstól“ skuldar í vanskil ef um er að ræða lán sem búið er að dæma að sé með ólöglegum vöxtum.

Óvíst er hvort að slík krafa hefði yfirhöfuð farið í vanskil ef vextir hefðu ekki verið hærri en heimilt er og telja samtökin augljóst að slíkan vafa ætti ætíð að túlka lántakanda í hag. Heimild til að slíta kröfur í sundur og skrá hluta þeirra í vanskil er ekki getið í starfsleyfinu.

Þá hafa samtökin séð mörg dæmi þess að fólk með smálánaskuldir hefur greitt upp skuldir, gert greiðslusamninga eða með öðrum hætti samið um greiðslur eftir að hafa verið hótað vanskilaskráningu þrátt fyrir að fólk hafi í raun ofgreitt lánveitanda vegna hinna ólöglegu lána.

Hótun um vanskilaskráningu virkar sem svipa á lántakendur og það er með öllu óásættanlegt að Creditinfo taki við skráningum vegna umdeildra krafna og vísi svo allri ábyrgð á innheimtufyrirtækið. Innheimtufyrirtæki sem búið er að sýna með fjölda úrskurða og fordæma að brjóti á réttindum skuldara. Skuldari velur ekki hvaða innheimtufyrirtæki innheimtir skuldina en á að geta treyst því að ekki komi til vanskilaskráningar að ósekju á grundvelli starfsleyfis sem veitt er af Persónuvernd.

Þau vinnubrögð sem samtökin hafa orðið áskynja í skráningum á vanskilaskrá af hálfu smálánafyrirtækja og innheimtufyrirtækis á þeirra vegum gefa tilefni til að ætla að sú umgjörð sem sett hefur verið um starfsemi Creditinfo sé ófullnægjandi og þarfnist endurskoðunar,“ segir í umsókn Neytendastofu og ASÍ.