„Oft var þörf en nú er nauðsyn,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins, aðspurður um mikilvægi stýrivaxtalækkunar, í samtali við Viðskiptablaðið í gær, en sá orðrómur hefur verið uppi að á fundum helgarinnar hafi myndarleg stýrivaxtalækkun komið til álita.

Enn fremur sagði Vilhjálmur að skoðun Samtaka atvinnulífins á nauðsyn stýrivaxtalækkunar hefði engum verið dulin í lengri tíma og henni hefði að sjálfsögðu verið komið á framfæri um helgina.

Mikil stefnubreyting

Í kjölfar falls krónunnar undanfarna daga og vikur hefur skoðanabræðrum Vilhjálms fjölgað ört og því hefur þrýstingur á vaxtalækkun aukist. Slíkri stefnubreytingu Seðlabankans virðist þó tekið með miklum fyrirvara af sérfræðingum á markaði.

Ekkert hafi verið gefið út af bankanum sem bendi til slíks og myndi slík yfirlýsing algjörlega stangast á við fyrri orð hans um að best sé fyrir fjármálastöðugleikann að halda uppi vöxtum og þannig standa vörð um gengi krónunnar. Með því væri hann í raun að skrifa undir þá skoðun margra að áhrif stýrivaxta á gengi krónunnar séu lítil sem engin.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .