„Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða og í raun með ólíkindum að það séu fjögur ár liðin,“ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir. Kjörtímabili hennar sem formanns Viðskiptaráðs Íslands lauk í vikunni en Katrín er jafnframt fyrsta konan sem gegnt hefur formennsku í ráðinu í yfir 100 ára sögu þess. Hreggviður Jónsson var forveri hennar í starfinu. Á hans vakt var McKinsey-skýrslan unnin og segir Katrín Olga að hún hafi tekið við góðu búi.

„Fyrsta árið vorum við að að fylgja eftir síðasta hluta McKinsey skýrslunnar sem sneri að auðlindageiranum,“ segir Katrín Olga og bætir við: „Að því loknu fórum við í stefnumótunarvinnu með nýjum framkvæmdastjóra, Ástu S. Fjeldsted, og greindum strauma og stefnur sem myndu hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag og viðskiptalíf. Útkoman varð sú að við töldum fjóra þætti veigamesta fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. Þessir þættir mótuðu framtíðarlinsurnar okkar fjórar sem við höfum haft að leiðarljósi í okkar störfum og tökum eina sérstaklega fyrir á hverju ári.“

Linsurnar fjórar eru tæknilinsan, mannauðslinsan, umhverfislinsan og alþjóðalinsan. „Fyrstu tvær linsurnar hafa nú þegar verið teknar fyrir á síðustu Viðskiptaþingum en í ár fjöllum við um umhverfislinsuna. Það mun síðan falla í hlut nýs formanns að taka við keflinu hvað snertir þá síðustu.

Sú fyrsta sem við settum á dagskrá var tæknilinsan. Þar fjölluðum við um þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað og fylgja tækniframförum, s.s. sjálfvirknivæðingu og áhrif hennar á samfélagið – breytingar á störfum, þannig að störf munu hverfa og ný verða til,“ útskýrir Katrín Olga.

„Mannauðslinsan var því að mörgu leyti rökrétt framhald af tæknilinsunni en þar lögðum við m.a. sérstaka áherslu á breytt hlutverk leiðtogans. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar í heiminum undanfarin ár og leiðtogar verða að aðlaga sig að þeim. Stjórnunarhættir nú eru allt aðrir en fyrir tveimur, þremur áratugum. Gamla húsbóndavaldið er að hverfa, það þarf aðra hæfni hjá leiðtogum s.s. tilfinningagreind, þrautseigju og „við“ í stað „þið“ hugsanahátt. Þá þurfa leiðtogar einnig að vera búnir undir það að starfsfólk sé kvikara, færi sig á milli starfa og geira í auknum mæli,“ segir Katrín Olga.

Yfirskrift viðskiptaþings þetta árið var „Á grænu ljósi – fjárfestingar og framfarir án fótspors“. „Titillinn rammar áherslur okkar vel inn – en við trúum því að framfarir í loftslagsmálum liggi í ábyrgum fjárfestingum, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda. „Þegar við settum málefni er varða sjálfbærni á dagskrá fyrir þremur árum voru ekki margir með þau í brennidepli. Í dag er sjálfbærni hins vegar mál málanna,“ segir Katrín Olga.

Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi

„Frá því að ég tók við hef ég lagt mikið upp úr fjölbreytileika. Gildir það jafnt um kyn, aldur, þjóðerni og rekstrarform. Á tíma mínum í stóli formanns eru það sennilega mestu vonbrigðin að ekki hafi orðið meiri breyting í þeim efnum í atvinnulífinu, þá sérstaklega á þeim þætti er lýtur að jafnrétti kynjanna og hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum innan fyrirtækja,“ segir hún.

Katrín Olga bendir á að einn af áhrifaþáttum efnahagshrunsins hafi verið einsleitni í fjármálageiranum og að með því að passa ekki upp á fjölbreytileikann auki fyrirtæki á hætturnar sem einsleitni getur leitt af sér. „Það gildir á öllum sviðum. Ísland er til dæmis nokkuð lokað land og ég tel að við ættum að opna landið meira, jafnt fyrir erlendum sérfræðingum, erlendum fjárfestingum og fólki í neyð.  Við þurfum að aðlaga grunnkerfin okkar að fjölbreytileika m.a. með því að bjóða upp á alþjóðlega grunn- og framhaldsskóla.“

Þá segir Katrín Olga  að fjölbreytileiki í aldurssamsetningu starfsfólks sé einnig vanmetin auðlind. Ungt fólk komi inn í fyrirtækin með nýja sýn og viðhorf sem megi ekki afskrifa. Að sama skapi sé reynsla þeirra sem eldri eru mikilvæg auðlind sem ekki eigi að fórna. „Eitt af því sem ég hef ekki skilið er að fólk þurfi að fara af vinnumarkaði, oft gegn sínum vilja, við sjötugt.“

N ánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .