Orkumálin eru í brennidepli þessa dagana en samkvæmt nýlegri skýrslu þarf að tvöfalda raforkuframleiðslu hér á landi til að ná loftslags- og orkumarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Ekki ríkir þó sátt um virkjanir á landi. Íslenska fyrirtækið North Tech Energy (NTE) vill fara nýjar leiðir í virkjanaframkvæmdum með því að nýta jarðhita á hafsbotni og framleiða raforku úti á sjó.

„Ég tel að þarna höfum við tækifæri til að hætta að virkja á landi. Þetta er orka sem skríður upp úr hafbotninum og enginn er að nýta,“ segir Geir Hagalínsson, framkvæmdastjóri NTE. Hann stofnaði fyrirtækið fyrir tólf árum í kringum hugmyndina að byggja jarðvarmavirkjun úti á úthafspalli.

„Í sinni einföldustu mynd hef ég líkt þessu við að skella Hellisheiðarvirkjun ofan á Troll, stærsta borpall Norðmanna. Með þessu komumst við hjá því að vera með lagnir og borholur út um allt land.“

NTE fékk leyfi frá Orkustofnun árið 2017 til leitar og rannsókna á jarðhita á rannsóknarsvæðum við Reykjaneshrygg og nálægt Grímsey. Fyrirtækið fékk Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) með sér í lið í þessa vinnu en niðurstöðurnar gáfu til kynna að sennilega væru stærstu jarðhitaauðlindir sem vitað er um í kringum strendur Íslands að sögn Geirs.

Fyrirtækið bíður nú eftir svari frá Orkustofnun um áframhaldandi rannsóknarleyfi. Þegar það liggur fyrir verður farið í frekari vinnu við að staðsetja virkjunarstaði og í kjölfarið sótt um virkjanaleyfi. Hann áætlar að það muni taka um 5-6 ár að setja upp slíka virkjun. NTE á nú í viðræðum við tvo norska aðila um þátttöku í verkefninu.

„Ég hef sagt í mörg ár að þetta sé í fyrsta skipti sem raforkusæstrengur frá Íslandi til Evrópu geti orðið að veruleika. Þetta gæti orðið stór tekjulind fyrir þjóðina,“ segir Geir. Vegna umfangs framkvæmdanna þurfi virkjanirnar að vera stórar og heildarafl á hverri stöð geti því hlaupið á hundruðum megavöttum (MW). Til samanburðar er uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar 303 MW. Geir hefur unnið að þessu verkefni frá stofnun NTE árið 2009 en hann lagði þá stund á nám í vélaog borpallaverkfræði í Skotlandi. Í kjölfarið vann hann um stund sem vélstjóri á borpöllum í Norðursjónum en fyrir átta árum sneri hann sér alfarið að NTE.

„Ég er sannfærður um að það sé raunhæfur kostur að setja upp jarðvarmavirkjun úti á sjó. Við munum keyra þessa vinnu áfram þar til við höfum sannreynt að þetta virki.“

Smávirkjanir í Indónesíu og Chile

North Tech Energy hefur einnig tekið þátt í þróunarverkefnum tengdum smávirkjunum og rannsóknarborunum víða um heim frá árinu 2013. NTE vinnur nú með íslenska fyrirtækinu Green Energy Group og hinu hollenska Transmark Renewables að reisa smávirkjun í Chile en verkefnið fékk tæplega 10 milljóna evra styrk í haust. Auk þess vinnur NTE með aðilum frá Indónesíu, fjárfestum og túrbínuframleiðendum að setja upp smávirkjanir í Indónesíu.

NTE hefur í samstarfi við aðila frá Noregi og Chile þróað jarðbor fyrir rannsóknir á jarðhitasvæðum. Að sögn Geirs þurfa framkvæmdaaðilar einungis 10% af því borsvæði sem áður þurfti við að bora hverja rannsóknarholu til að  kanna jarðhitasvæði. Kostnaður við borun á holu niður á 2 þúsund metra dýpi sé 30% af því sem þekkist í geiranum.

„Það hefur reynst mjög erfitt að fjármagna fyrstu stigin í svona verkefnum. Við höfum náð að skera 70% af kostnaðinum í burtu við fyrstu borun og ættu þessi verkefni því að geta gengið hraðar fyrir sig,“ segir Geir. Þá hafi stjórnvöld í Indónesíu  fest í lög að rannsóknarboranir fari fram með þessum hætti en 70% af háhitasvæði eyjaklasans eru í vernduðum skógum.

„Ég fer ekki ofan af því að það eigi alltaf að byrja boranir á nýjum svæðum með þessum grönnu holum. Þú færð jafnmiklar upplýsingar um stærð jarðhitasvæðisins með þessari aðferð.“

Hann bendir á að umrædd verkefni NTE séu á svæðum með takmarkaða innviði, lítil dreifikerfi og litla eftirspurn. Ef rannsóknarborunin skilar jákvæðri niðurstöðu þá sé hægt að nota sama jarðbor til þess að bora vinnsluholur og í flestum tilfellum þarf einungis að styðjast við þá innviði sem eru til staðar. Umræddar smávirkjanir eru með um 5-10 MW af uppsettu afli og í allflestum tilfellum er verið að skipta út díselrafstöðvum.

Geir er sífellt spurður að því hvers vegna verið sé að setja upp virkjanir að þessari stærð fremur en að einbeita sér að stærri virkjunum. Hann bendir á að flest þróunarlönd eins og Indónesía búi við lítið sem ekkert rafmagn og ekkert dreifikerfi á afskekktum eyjum. Með því að reisa margar 5-10 MW einingar fáist mikil fjárhagsleg áhættudreifing og hægt að ná til fleyri svæða með lægri kostnaði.

Viðtalið við Geir birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .