Áfram er unnið að undirbúningi útboða á byggingaframkvæmdum og að samningum við landeigendur vegna þriggja virkjana á neðra Þjórsársvæðinu auk Búðarhálsvirkjunar á efra Þjórsársvæði. Þá er búist við að vegalagning að virkjunarsvæðum og brúargerð verði boðin út í vor.

Jóhann Kröyer, verkefnisstjóri Landsvirkjunar, sagði á Útboðsþingi sl. föstudag að unnið væri á fullu við hönnun og annan undirbúning Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar.

„Mati á umhverfisáhrifum lauk árið 2004 og það er til samþykkt aðalskipulag austan Þjórsár í Rangárþingi og Ásahreppi. Vestan Þjórsár bíður aðalskipulagið staðfestingar umhverfisráðherra og nýtt aðalskipulag Flóahrepps er í yfirferð hjá skipulagsstofnun og fer þaðan til staðfestingar hjá umhverfisráðherra. Við reynum að halda áfram eins hratt og lög og reglugerðir leyfa.

Við reiknum með að það verði byrjað ofanfrá, þ.e. á Hvammsvirkjun. Það er þó öldungis allt óvisst með hvenær hægt verður að hefja framkvæmdir. Það er verið að vinna í samstarfi við Vegagerðina að útboðsgögnum fyrir vegi og eina brú. Við reiknum með að ef heimildir fást í næsta mánuði eða svo og fjárveiting, þá verði þessi verk boðin út í vor."