Virkjun mannauðs á Reykjanesi, miðstöð fólks í atvinnuleit var formlega opnuð á Vallarheiði í gær. Virkjun er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Vinnumálastofnunar, verkalýðsfélaga, fyrirtækja og menntastofnana á svæðinu s.s. Keilis, miðstöð vísinda og fræða, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ. Þar kemur fram að markmiðið með rekstri Virkjunar er að byggja upp starfsemi fyrir íbúa á Reykjanesi sem leita nýrra tækifæra í atvinnu eða námi.

Þá verði Virkjun ekki síður samkomustaður fólks sem vill breyta því áfalli sem atvinnuleysi er í ný tækifæri á atvinnumarkaði með námi, námskeiðum, tómstundum og menningarstarfsemi.

Viðstaddir opnunina voru m.a. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Þór Sigfússon formaður Samtaka atvinnulífsins.

Pálmar Guðmundsson frá Þróunarfélags Keflavíkur afhenti Virkjun húsnæðið formlega til afnota en hún er til staðar í byggingu 740 á Vallarheiði þar sem áður var launaskrifstofa hersins sem er vel við hæfi.

„Menn voru bjartsýnir á fundinum þrátt fyrir að atvinnuleysi mælist nú mest á Suðurnesjum eða 10% og var á það bent að brotthvarf Varnarliðsins 2006 hafi ekki haft jafn afdrifarík áhrif og menn töldu þar sem samstaða á svæðinu hafi verið mikil og viðbrögð rétt,“ segir í tilkynningunni.