Að sögn Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, vinnur fyrirtækið nú að undirbúningi virkjana í neðanverðri Þjórsá. Þetta er gert í því skyni að nýta endurnýjanlega orku til orkufrekra verkefna, sem eru í bígerð og umhverfismat liggur fyrir um.

„Vonast er til að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Grænt og kolefnislaust rafmagn sem unnið er úr íslensku vatnsafli er nú eftirsótt á alþjóðamarkaði og Landsvirkjun selur nú þegar græn vottorð til fyrirtækja á meginlandi Evrópu,“ segir Friðrik í tilkynningu sem send var út samhliða því að greint var frá samningi við Verne Holding vegna netþjónabús á Keflavíkurflugvelli en það mun nota orku úr neðri hluta Þjórsár. Við undirritun samningsins voru ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson, Kristján Möller og Árni Mathiesen þannig að ljóst er að ríkisstjórninni er vel kunnugt um áformin.