Kostnaður við virkjun sjávarorku er nú um 20 sinnum hærri en við hefðbundna vatnsaflsvirkjun en hún gæti orðið hagkvæmur kostur um eða eftir miðja öldina. Þetta eru meðal niðurstaðna sjö manna sérfræðingahóps sem skilað hefur greinargerð um umfang og nýtingarmöguleika sjávarorku. Í henni segir að mikil framþróun hafi verið í beislun sjávarorku og má reikna með að á næstu 30 árum verði miklar framfarir á þessu sviði. Fyrirsjáanlegt er því að kostnaður við virkjun sjávarorku muni fara lækkandi samhliða því að spár gera ráð fyrir að orkuverð muni hækka.

Nefndin, sem skipuð var af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, leggur til að Orkustofnun verði falið að varðveita í gagnagrunni upplýsingar um sjávarorku og hugað verði að löggjöf um nýtingu sjávarorku, vindorku á hafi og jarðvarma á hafsbotni.