Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði í gær fyrir rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Formaður þess faghóps sem sjá á um nýtingu orkuauðlinda segir útilokað hafi verið að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir á því á þeim stutta tíma sem hópurinn fékk.

Útilokað að meta þjóðhagslega hagkvæmni

Er um að ræða tillögu til þingsályktunartillögu sem er samhljóða niðurstöðum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, þar sem lagt er til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk, tíu virkjunarkostir fari í verndarflokk og tíu í biðflokk.

Viðskiptablaðið fjallaði um að Daði Már Kristófersson hafi sagt að útilokað hafi verið að meta þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarkosta á þeim stutta tíma sem hópurinn hafi starfað, hann hefði þurft tvö ár .

Aðrir hópar skipaðir fyrr

Hinir starfshóparnir voru skipaðir fyrr, en þeir sáu um náttúru og menningarminjar, um útivist og hlunnindi og um þjóðhagsmál.

Daði var formaður þess af faghópum verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar sem átti að fjalla um nýtingu orkulinda, en hann er forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Lögð fram sex dögum eftir afhendingu skýrslu

Þann 26. ágúst fékk ráðherrann afhenta lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga, en sex dögum síðar lagði hún fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Er tillaga ráðherra samhljóða niðurstöðum verkefnastjórnar, en sama dag greindi Viðskiptablaðið frá því að í lokaskýrslunni hafi þjóðhagsleg hagkvæmni virkjunarkosta ekki verið metin .

Ráðherra segir rammaáætlunina öfluga og metnaðarfulla nýtingar- og verndaráætlun

„Ég tel að rammaáætlun sé grundavallartæki til að vinna undirlag fyrir ákvörðunartöku um það hvaða landsvæði við viljum taka undir virkjunaráform og hvaða landsvæði við viljum vernda til framtíðar og hef lagt á það ofuráherslu sem umhverfis- og auðlindaráðherra að standa vörð um þetta stjórntæki,“ sagði ráðherra.

„Tillagan sem ég mæli hér fyrir er í senn öflug orkunýtingaráætlun, á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun. Fyrirliggjandi tillaga felur í sér mikla möguleika til orkuöflunar eða rúmlega 1400 MW. Til samanburðar vil ég benda á að uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi er um 2500 MW. Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd.“