Árið 2017 var Ísland með lægsta hlutfall ungs fólks á aldrinum 15–24 ára sem var án vinnu, utan skóla og ekki í starfsþjálfun (3,9%). Næst á eftir komu Holland og Noregur. Hæst var hlutfallið í Makedóníu (24,9%) og Tyrklandi (24,2%) en meðaltal Evrópusambandsins var 10,9%. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Virkni ungs fólks á vinnumarkaði er því með besta móti á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd.

Í kjölfar efnahagshrunsins fjölgaði ungu fólki sem var án vinnu og utan skóla og ekki í starfsþjálfun, en hlutfall 15–24 ára hækkaði úr 4,3% árið 2008 í 7,3% árið 2009 og hélst svo óbreytt árið 2010 en hefur lækkað síðan. Árið 2017 voru aðeins 3,9% aldurshópsins í þessari stöðu en það er lægra hlutfall en fyrir hrun. Fyrir hrun voru ungar konur líklegri en ungir karlar til að vera án vinnu, utan skóla og ekki í starfsþjálfun en frá 2009 til 2016 hafa ungir karlar verið mun líklegri til að vera í þeirri stöðu. Árið 2017 voru kynin hinsvegar svo gott sem jöfn með tæplega 4%.