Íslenska miðasölufyrirtækið Tix hefur samið við Het Concertgebouw, eitt virtasta tónlistarhús í Evrópu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Miðasala á sýningar í tónlistarhúsinu í gegnum Tix fór í loftið á mánudaginn síðasta.

Hið 130 ára gamla Concertgebouw leitaði til Tix fyrir rúmu ári síðan til að leysa fyrra miðasölukerfi tónlistarhússins af hólmi.

„Að velja Tix sýnir hversu mikið traust hugbúnaðarlausn okkar hefur aflað sér á hinum alþjóðlega markaði. Viðskiptavinur eins og Concertgebouw hefur gríðarlegar háar kröfur og kallar á öflugt kerfi með mikinn sveigjanleika. Við erum afar þakklát fyrir traustið sem þau hafa sýnt okkur en þeirra val sýnir enn og aftur að Tix lausnin er algjörlega á heimsmælikvarða og eitt hraðast vaxandi fyrirtækið í þessum geira,“ segir Sindri Mar Finnbogason, forstjóri Tix.

Innleiðingin á kerfinu fól meðal annars í sér vinnslu og innflutning gagna um miða, pantanir, áskriftir, viðskiptavina sögu, meðlimaaðildir og fleira, 10 ár aftur í tímann.

Fyrir tilviljun er Concertgebouw Orchestra stödd á Íslandi þessa dagana og mun koma fram í Eldborgarsal Hörpu miðvikudaginn 10. nóvember.

Fá til sín fyrrum hönnunarstjóra Arion og Ueno

Arnar Ólafsson hefur verið ráðinn sem hönnunarstjóri hjá Tix en hann kemur frá Arion banka þar sem hann gegndi sömu stöðu.
Þar áður var Arnar hönnunarstjóri Ueno sem var selt til Twitter í byrjun árs. Meðal viðskiptavina Arnars voru meðal annars Facebook, CCP, Nova, Reuters og Síminn. Arnar er einnig einn stofnenda vefstofunnar Skapalóns og stýrði stafrænni hönnun hjá OZ um árabil.

Verkefni á vegum Arnars hafa unnið ýmis verðlaun í gegnum tíðina en þeirra á meðal eru Íslensku vefverðlaunin, Lúðurinn, FÍT, Awwwards og FWA.

„Það er gríðarlegur fengur að fá Arnar til okkar hjá Tix. Hann hefur mikla reynslu af hönnun stórra verkefna fyrir alþjóðleg fyrirtæki í fremstu röð. Næmt auga hans fyrir fallegri hönnun og framúrskarandi notendaupplifun mun hjálpa Tix í því vaxtarferli sem við erum í um allan heim.“ segir Einar Þór Gústafsson framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Tix.