Viðræður hefjast senn um aðild Búlgaríu að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, að sögn aðstoðarefnahags- og orkumálaráðherra Búlgaríu, Nina Radeva. Þetta kemur fram í frétt Bulgarian News Agency . Búlgaría sótti um aðild að samningnum í júlímánuði síðastliðnum. Á árunum 2000-2004 jukust viðskipti milli Búlgaríu og EFTA-ríkjanna um 84% og á fyrstu átta mánuðum ársins hafa vöruskipti numið tólf milljörðum króna, sem er 8,8% meira en sama tímabil 2004.

Radeva segist vera þess fullviss að aðild Búlgaríu að Evrópska efnahagssvæðinu muni örva viðskipti milli landanna. Evrópska efnahagssvæðið nær sem kunnugt er til 25 aðildarríkja Evrópusambandsins, auk EFTA-ríkjanna Íslands, Liechtenstein og Noregs.

Viðskiptablaðið hafði samband við utanríkisráðuneytið í gær til að fá nánari upplýsingar um málið, en embættismaður þess, sem hafði með málið að gera, vísaði til vinnureglu innan ráðuneytisins um að vísa ætti fyrirspurnum fjölmiðla til aðstoðarmanns ráðherra, sem var staddur erlendis.