Norrænu kauphallarsamstæðunni OMX, sem er eigandi kauphallarinnar á Íslandi, hefur verið boðið af eigendum kauphallarinnar í Ljubljana í Slóveníu að hefja viðræður vegna tilboðs sem OMX lagði fram 14. desember á síðasta ári.

Tilboð OMX hljóðaði upp á 4,2 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 380 milljónum íslenskra króna. Viðræðurnar eiga að snúast um með hvaða hætti OMX geti komið að rekstri kauphallarinnar, m.a. með því að auka hagkvæmni og bæta stöðu hennar á hinum slóvenska fjármagnsmarkaði.

Samkvæmt tilkynningu sem barst frá kauphöllinni í Ljubljana rann yfirtökutilboð OMX út í gær án þess að svar hefði fengist.