Einkavæðingarnefnd slóvensku ríkisstjórnarinnar sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni þar sem hún lýsti því yfir að hún myndi halda áfram að ræða við báða þá aðila sem keppast um hlut ríkisins í Telekom Slovenije. Annars vegar er þar um að ræða íslenska félagið Skipti, eins og kunnugt er, en hins vegar fjárfestingarsjóðina Bain Capital og Axos Capital.

Nefndin var með yfirlýsingu sinni að bregðast við erindi forsvarsmanna Skipta um framhaldið. Í yfirlýsingunni kemur fram að í erindinu hafi Skipti viðrað að draga sig út úr samningaviðræðunum.

"Nefndin hafði samband við okkur eftir fund sinn í gær [fimmtudag] og óskaði eftir því að við héldum áfram að vinna ákveðna vinnu með þeim," segir Pétur Þ. Óskarsson, upplýsingafulltrúi Skipta. "Við féllumst á það en lögðum áherslu á að það væri öllum í hag að ferlinu yrði hraðað."

Ekki liggur fyrir hvenær endanleg ákvörðun verður tekin. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að hún hyggist funda aftur í byrjun mars og að almenningur verði upplýstur um gang mála.