Viðræður um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á fjarskiptaneti Símans hafa verið teknar upp að nýju og er að sögn Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, stefnt að því að fá niðurstöðu sem fyrst í málið.

"Aðilar hafa hist aftur til að fara yfir stöðuna eftir að nýr meirihluti hefur sett sig inn í hana. Við erum því að taka upp þráðinn og ég tel að fljótlega muni koma í ljós hvort af þessu verður eða ekki," sagði Brynjólfur.

Hann vildi aðspurður ekki kannast við að væntanleg skráning Exista, móðurfélags Símans, ýtti á eftir sölunni. "Við höfum einsett okkur að láta málið ekki dragast mikið lengur enda ekki gott fyrir starfsfólkið að málið dragist," sagði Brynjólfur.

Í apríl síðastliðnum var greint frá því að viðræður hefðu átt sér stað um kaup OR á öllu fjarskiptaneti Símans, -- ljósleiðurum, breiðbandi og koparleiðslum og ætlunin væri að sameina það fjarskiptakerfi Orkuveitunnar.

Brynjólfur vildi ekkert tjá sig um mögulegt verð á fjarskiptaneti Símans í þessum viðskiptum en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á sínum tíma voru verðhugmyndir Símamanna nálægt 20 milljörðum króna. Ljóst er að það myndi hafa veruleg áhrif á afkomu Símans sem er með skuldir upp á um 55 milljarða króna og viðskiptavild upp á 57 milljarða. Kaupverð Símans við einkavæðingu var 67 milljarðar króna.

Að sögn Gunnlaugs Þórs Þórðarsonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, er ætlunin að taka málið fyrir í stjórn OR á morgun (í dag) en yfirstjórn félagsins hefur komið að viðræðunum. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um söluna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru töluvert breyttar forsendur í viðræðunum frá því þær voru síðast í gangi en skipt hefur verið um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur síðan.