Nú í vikunni munu fulltrúar fjármálaráðuneytisins ásamt fulltrúum nýju bankanna og ráðgjöfum þeirra eiga fundi með skilanefndum bankanna og ráðgjöfum þeirra til að hefja formlegar samningaviðræður í því augnamiði að ná samkomulagi um greiðslu til gömlu bankanna fyrir yfirteknar eignir og ljúka jafnframt eiginfjármögnun nýju bankanna að því er segir í tilkynningu fjármálaréðuneytisins.

Í tilkynningunni kemur fram að á síðustu þremur mánuðum hefur mikil vinna verið innt af hendi í nýju bönkunum við að ganga frá nýjustu fjárhagsupplýsingum og viðskiptaáætlunum sem verða mikilvægur grundvöllur að samningaviðræðunum.

Viðskiptaáætlanirnar taka meðal annars mið af matsvinnu þeirri sem unnin var af Deloitte og skilað var í apríl. Auk þessa hefur verið haldinn fjöldi óformlegra funda með skilanefndunum, ráðgjöfum þeirra og fulltrúum lánadrottna gömlu bankanna til að upplýsa þá um framvinduna og ræða mögulegt samningsuppgjör.

"Fjármálaráðuneytið telur mikilvægt að gætt verði sanngirni við samningsgerðina og þar sem að báðir samningsaðilar hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, en þær liggja nú fyrir. Vonir standa til þess að viðræður gangi greiðlega fyrir sig þannig að hægt verði að ljúka þeim á skömmum tíma og ganga endanlega frá eiginfjármögnun nýju bankanna," segir í tilkynningunni.